Fótbolti

Messi skoraði tvö eftir að hafa fengið enn einn gullskóinn

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi fékk gullskóinn frá Don Garber, yfirmanni MLS-deildarinnar.
Lionel Messi fékk gullskóinn frá Don Garber, yfirmanni MLS-deildarinnar. Getty/Eston Parker

Lionel Messi lagði upp eitt og skoraði tvö mörk, þar af eitt skallamark, í sigri Inter Miami á Nashville í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í gær, rétt eftir að hafa tekið við gullskónum sem markahæsti maður deildarinnar.

Úrslitakeppnin í MLS-deildinni er að hefjast og fagnaði Inter Miami 3-1 sigri gegn Nashville í fyrsta leik í umspili, í Flórída í gær. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í sjálfa útsláttarkeppnina.

Mörkin frá Messi má sjá á myndbandi hér að neðan.

Messi hefur nú hlotið gullskó sem markahæsti maður deildar alls níu sinnum á sínum einstaka ferli. Gullskóinn fékk hann sem markahæsti maður deildarkeppninnar en þar skoraði hann alls 29 mörk í 28 leikjum.

Þetta var í fyrsta sinn sem Messi fær gullskóinn í Bandaríkjunum, eftir að hann kom til Inter Miami árið 2023. Daginn áður hafði félagið tilkynnt að hann myndi spila með því áfram næstu þrjú ár.

Yfirgnæfandi líkur eru á að Messi verði annað árið í röð valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar en auk þess að vera markakóngur var hann annar tveggja stoðsendingahæstu manna með 19 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×