Fótbolti

Skoraði fyrsta markið sama dag og hann flutti í þriðja sinn á þremur mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Bent Magnússon fagnar marki sínu í sigri Heart of Midlothian á móti Dundee.
Tómas Bent Magnússon fagnar marki sínu í sigri Heart of Midlothian á móti Dundee. Getty/Roddy Scott

Íslenski miðjumaðurinn Tómas Bent Magnússon opnaði markareikning sinn fyrir skoska úrvalsdeildarliðið Hearts í sigri á Dundee í gær.

Hearts vann leikinn 4-0 og er með níu stiga forskot á Celtic á toppnum.

Tómas Bent kom til liðsins frá Val í sumar og innsiglaði sigurinn með marki ellefu mínútum fyrir leiklok. Hann hafði komið inn á sem varamaður átta mínútum fyrr.

Tómas Bent var tekinn í viðtal á samfélagsmiðlum Hearts eftir þennan tímamótaleik sinn. Hann var spurður hvort hann væri ekki mjög ánægður með að ná inn markinu.

„Þetta er virkilega gott, virkilega gott,“ sagði Tómas Bent.

„Ég hef átt nokkur skot í markið núna og það var gott að ná loksins að skora. Þetta var virkilega mikilvægur sigur. Ég meina, það er erfitt að fara á völlinn hjá St Mirren og það þýðir að stigið sem við náðum á útivelli í vikunni er gott stig núna eftir að við náðum í þessi þrjú stig í dag,“ sagði Tómas

Spyrillinn talaði um mikilvægi þess að hafa líka gæðaleikmenn sem koma af bekknum.

„Já, klárlega. Ég meina, við erum með virkilega góðan hóp. Allir leggja sitt af mörkum og það hefur gengið vel hingað til,“ sagði Tómas en hvernig hefur gengið hjá honum að koma sér fyrir í Edinburgh?

„Jæja, ég er að flytja í þriðju íbúðina mína á þessum þremur mánuðum einmitt í dag. Fyrir utan það, þá er allt í fínu lagi,“ sagði Tómas.

Tómas var spurður um það hvort hann hafi fengið skilaboð frá Íslandi eftir leikinn.

„Ég sá bara ein: ‚Það þarf ekki að vera fallegt, en til hamingju með markið.' En já, ég fæ örugglega einhver skilaboð,“ sagði Tómas eins og má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×