Fótbolti

Heimir spurður hvort að enn stafi ógn af Ron­aldo

Aron Guðmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo mætir Heimi Hallgrímssyni og lærisveinum hans í írska landsliðinu með því portúgalska í Dublin á morgun
Cristiano Ronaldo mætir Heimi Hallgrímssyni og lærisveinum hans í írska landsliðinu með því portúgalska í Dublin á morgun Vísir/Samsett

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands, vonast til þess að sínir menn nái að hafa hemil á hinum fertuga Cristiano Ronaldo í leiknum gegn Portúgal í kvöld. 

Írland og Portúgal mætast á Aviva leikvanginum í Dublin í kvöld í undankeppni HM. Portúgal situr á toppi riðilsins á meðan að Írland er í þriðja sæti og þarf á úrslitum að halda gegn Portúgal til þess að halda möguleikum sínum í riðlinum á lífi.

Á blaðamannafundi í gær var Heimir spurður að því hvort að Cristiano Ronaldo, fertuga stórstjarnan í liði Portúgal væri enn ógn. 

„Tölfræðin talar sínu máli,“ svaraði Heimir. „Hann er enn að skora mörk, slá met og þrá hans í að skora mörk er ein af ástæðunum fyrir því hversu einstakt sóknarlið Portúgal er.“

Portúgal reyni alltaf að finna Ronaldo, ef ekki í fætur, þá í loftinu. 

„Þegar að flest lið komast í forystu í leikjum reyna þau að drepa hann niður. Landslið Portúgal vill hins vegar skora fleiri mörk.“

Það mun skýrast fyrir leik Írlands og Portúgal í kvöld hversu þýðingarmikið það yrði fyrir Írland að sækja jafntefli eða sigur gegn Portúgal því fyrir þann leik í dag mætast Ungverjaland og Armenía í sama riðli. 

Ungverjaland er með einu stigi meira en Írland í öðru sæti riðilsins sem veitir þátttökurétt í umspili fyrir HM í mars. Írland og Ungverjaland mætast í lokaumferð riðilsins. 

Aðspurður hvort þetta væri mikilvægasti leikurinn í hans stjórnartíð svaraði Heimir svona: 

„Já. Þetta er hið minnsta sá leikur sem mest veltur á. En eins og ég hef sagt áður. Við vitum ekki hversu mikið er undir í þessum leik fyrr en eftir leik Armena gegn Ungverjum.“

„Við þurfum hið minnsta stig út úr þessum leik. HM er í húfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×