Neytendur

Hækka ár­gjöld kredit­korta í fyrsta sinn í sjö ár

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bankinn hefur ekki hækkað gjöldin síðan árið 2018.
Bankinn hefur ekki hækkað gjöldin síðan árið 2018. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn Arion banka hafa hækkað árgjöld á kreditkort sín í fyrsta sinn í sjö ár, frá árinu 2018. Breytingarnar taka gildi 1. febrúar. Hlutfallsleg hækkun á notkun aukakorta eru mestar og nema að jafnaði um fjörutíu prósentum.

Bankinn tilkynnti korthöfum um hækkanirnar í tilkynningu í dag. Þar kemur fram að árgjöld kortanna hafi verið óbreytt frá árinu 2018. Nú hækki bankinn gjaldið í fyrsta sinn í sjö ár, á þeim árum hafi vísitala neysluverðs hækkað um 45 prósent. Korthafar hafi notið sérkjara og muni að öðru óbreyttu njóta þeirra áfram.

Þannig birtir bankinn töflu með yfirliti yfir verðin. Sem dæmi mun almennt kort nú kosta 3990 krónur á ári en kostaði áður 3400 krónur. Gullkortið fer úr 10.300 krónum í 12.360 krónur og Platinumkort úr 17.900 krónum fyrir árið og í 21.480 krónur. 

Er um að ræða um tuttugu prósenta hlutfallslega hækkun. Mesta hlutfallslega hækkunin nær til Premía kortsins sem fer úr 46.900 krónum í 60.970 þar sem hlutfallsleg hækkun nemur þrjátíu prósentum.

Hækkanirnar eru hlutfallslega mestar þegar kemur að notkun aukakorta og nema að jafnaði rúmum fjörutíu prósentum. Þannig mun kostnaður aukakorts vegna almenns korts nema 40,6 prósentum en minnsta hækkunin nær til Premium World aukakortsins, eða 25 prósent. Bæði Gullkortin og Platinumkortin hækka hlutfallslega um 44 prósent.

Aðalkort hlutfallsleg hækkun:

  • Almennt kort = 17,4 prósent
  • Bláa kortið = 12,0 prósent
  • Gullkort = 20,0 prósent
  • Gullkort vildar = 20,0 prósent
  • Platinumkort = 20 prósent
  • Platinum vildar = 20,1 prósent
  • Premium World = 25 prósent 
  • Premía = 30,0 prósent

Aukakort - hlutfallsleg hækkun:

  • Almennt kort = 40,6 prósent
  • Bláa kortið = 34,3 prósent
  • Gullkort = 44,0 prósent
  • Gullkort vildar = 44,0 prósent
  • Platinumkort = 44,0 prósent
  • Platinum vildar = 44,0 prósent
  • Premium World = 25,0 prósent





Fleiri fréttir

Sjá meira


×