Bíó og sjónvarp

Helga Margrét tekur við af Króla

Árni Sæberg skrifar
Helga Margrét hefur mikla reynslu af Gettu betur, enda hefur hún verið dómari, spurningahöfundur og keppandi.
Helga Margrét hefur mikla reynslu af Gettu betur, enda hefur hún verið dómari, spurningahöfundur og keppandi. Ríkisútvarpið

Helga Margrét Höskuldsdóttir er nýr spyrill í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, sem hefst á Rúv í janúar. Helga Margrét tekur við keflinu af Kristni Óla Haraldssyni, Króla, sem hefur verið spyrill undanfarin tvö ár.

Í fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu þess efnis segir að það þyki jafnan tíðindi þegar nýr spyrill tekur við keppninni. Margt þekkt fjölmiðlafólk hafi gegnt þessu hlutverki í gegnum tíðina, þar á meðal Ómar Ragnarsson, Stefán Jón Hafstein, Edda Hermannsdóttir, Logi Bergmann, Eva María Jónsdóttir og Kristjana Arnarsdóttir.

Dómari, spurningahöfundur og keppandi

Helga Margrét sé þekkt sem íþróttafréttamaður en hún hafi líka um árabil verið tengd Gettu betur sem spurningahöfundur og dómari. 

Haft er eftir henni að hún sé spennt að taka við nýju hlutverki. 

„Ég hlakka mikið til að fá að spreyta mig á þessu nýja hlutverki. Gettu betur er einn af fyrstu sjónvarpsþáttunum sem ég man eftir að hafa fylgst spennt með og það er ennþá jafn gaman að sjá keppendur svara ótrúlegustu spurningum hárrétt. Eftir að hafa keppt sjálf veit ég líka hvað það er mikil vinna á bakvið það að taka þátt og ég er spennt að fá að fylgjast með keppendum í vetur uppskera eftir þá vinnu.“

Nóg að gera hjá Króla

Þá segir að Kristinn Óli hverfi nú til annarra starfa en hann hafi útskrifast sem leikari fyrir ári og verði í ýmsum leiksýningum í Þjóðleikhúsinu í vetur. Auk þess eigi hann og unnusta hans von á barni í lok desember. 

„Ég naut þess að vera spyrill í keppninni enda verið mikill aðdáandi hennar árum saman. Ég á eftir að sakna þess að halda um stjórnartaumana en um leið fagna ég því að Helga Margrét taki við af mér. Hún er frábær í alla staði og á eftir að rúlla þessu upp,“ er haft eftir honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.