Enski boltinn

Skemmti­legt fyrir fólkið heima og United verð­skuldaði sigur

Sindri Sverrisson skrifar
Ruben Amorim var ánægður með frammistöðuna í kvöld en svekktur að hafa nú misst af sjö stigum í síðustu þremur heimaleikjum.
Ruben Amorim var ánægður með frammistöðuna í kvöld en svekktur að hafa nú misst af sjö stigum í síðustu þremur heimaleikjum. Getty/Marc Atkins

„Þetta var skemmtilegur leikur fyrir alla heima,“ sagði Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir 4-4 jafnteflið við Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

United komst þrívegis yfir í leiknum en varð engu að síður að sætta sig við jafntefli og var Amorim á því að liðið hefði verðskuldað sigur í kvöld. Viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Amorim eftir jafnteflið við Bournemouth

„Við byrjuðum mjög vel og áttum mjög góðan fyrri hálfleik. Staðan hefði átt að vera orðin allt önnur. Síðan voru fyrstu sex mínúturnar í seinni hálfleik svipaðar og gegn Nottingham. Við misstum einbeitinguna og þeir skoruðu tvö mörk. En við náðum að komast aftur inn í leikinn, skoruðum tvö og þá verðum við að ná að klára dæmið, en á endanum varð þetta skemmtilegur leikur,“ sagði Amorim.

Hann fagnaði vel þegar Matheus Cunha kom United í 4-3 á 79. mínútu:

„Ég sá hvað menn lögðu á sig, sem og stuðningsmennirnir, og þegar við komumst í 4-3 leið mér eins og við myndum halda áfram og reyna að ná öðru marki en jafntefli varð niðurstaðan.“

United spilaði um tíma með fjögurra manna varnarlínu í kvöld sem er eitthvað sem margir hafa kallað eftir en Amorim hefur verið ansi fastheldinn á sitt 3-4-3 kerfi.

„Það var margt gott en líka margt sem við þurfum að laga. Stundum snýst þetta meira um smáatriði, það að við séum ekki að vinna, frekar en hvort við erum með 3, 4 eða 5 menn aftast. Við þurfum að vinna í þessum smáatriðum, skilja betur hvernig leikirnir sveiflast og nýta betur færin. Við sköpuðum svo mörg færi hér gegn mjög góðu liði og hefðum átt að landa þremur stigum,“ sagði Amorim, svekktur eftir að hafa misst af sjö stigum í síðustu þremur heimaleikjum:

„Já, þegar við vinnum á útivelli verðum við að vinna heima líka. En frammistaðan núna var allt önnur en í síðustu tveimur heimaleikjum, þó að niðurstaðan væri bara eitt stig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×