Fótbolti

Glódís gæti þurft að ryðja Man. Utd og Barcelona úr vegi að úr­slita­leiknum

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og Barbara Dunst eru tveimur einvígum frá því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Glódís Perla Viggósdóttir og Barbara Dunst eru tveimur einvígum frá því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Getty/Alexander Hassenstein

Nú er orðið ljóst hvaða leið Glódís Perla Viggósdóttir og liðsfélagar hennar í Bayern München þurfa að fara til að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í vor.

Úrslitaleikurinn fer fram í Osló 23. maí og ef að Glódís á að geta leitt lið sitt inn á Ullevaal-leikvanginn er afar líklegt að Barcelona verði stærsta hindrunin á veginum. Fyrst þarf Bayern hins vegar að slá út Atlético Madrid eða Manchester United.

Leiðin að úrslitaleiknum í Osló 2026.UEFA

Tólf lið eru komin áfram í keppninni og er Bayern eitt þeirra fjögurra sem komin eru beint í 8-liða úrslit. Hin þrjú eru Barcelona, Chelsea og Lyon. Átta lið fara fyrst í umspil og þaðan komast fjögur í 8-liða úrslitin.

Umspilið:

  1. Atlético Madrid - Manchester United
  2. Paris FC - Real Madrid
  3. OH Leuven - Arsenal
  4. Wolfsburg - Juventus

Sigurliðin fjögur mæta svo fjórum efstu liðunum í 8-liða úrslitum, eins og fyrr segir, svo þau líta svona út:

  1. Atleti/Man. Utd – Bayern München
  2. Paris FC/Real Madrid – Barcelona
  3. OH Leuven/Arsenal – Chelsea
  4. Wolfsburg/Juventus – Lyon

Sigurliðin úr einvígi 1 og 2 mætast svo í undanúrslitum, sem þýðir að þar gæti Bayern mætt Barcelona, og sigurliðin úr einvígi 3 og 4 mætast.

Leikirnir í umspilinu verða 11.-12. og 18.-19. febrúar. Leikirnir í 8-liða úrsiltum verða 24.-25. mars og 1.-2. apríl, og undanúrslitin svo 25.-26. apríl og 2.-3. maí. Eins og fyrr segir er svo úrslitaleikurinn sjálfur 23. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×