Arsenal með sex stiga for­skot eftir blautan slag

Sindri Sverrisson skrifar
Bukayo Saka og Milos Kerkez mættust nokkrum sinnum í kvöld.
Bukayo Saka og Milos Kerkez mættust nokkrum sinnum í kvöld. Getty/Justin Setterfield

Þrátt fyrir að sigurgöngu Arsenal hafi lokið í kvöld er liðið komið með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, eftir markalaust jafntefli í stórleiknum gegn Liverpool í Lundúnum.

Úrhellisrigning var fyrir leik og á meðan á honum stóð en bleytan hjálpaði þó ekki til við að búa til mörk að þessu sinni.

Arsenal var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér nokkur færi en Liverpool var þó nær því að skora, þegar Conor Bradley fékk boltann óvænt frá David Raya og náði skoti yfir markvörðinn en í þverslána.

Declan Rice og Bukayo Saka fengu tækifæri til að skora rétt fyrir hlé en tókst það ekki.

Seinni hálfleikur var hins vegar afar tíðindalítill og hvorugt liðanna átti skot á rammann fyrr en í uppbótartíma, þegar varamaðurinn Gabriel Jesus átti lausan skalla í hendur Alisson og Gabriel Martinelli skot úr þröngu færi sem Alisson varði einnig.

Miðvörðurinn Gabriel var svo nálægt því að skora sigurmark með skalla eftir hornspyrnu á síðustu sekúndu en setti boltann rétt framhjá. Jesus var á bakvið hann, í enn betra færi, en náði ekki til boltans og í kjölfarið var flautað til leiksloka.

Eins og fyrr segir er Arsenal nú með sex stiga forskot á toppnum, á Manchester City og Aston Villa sem hafa 43 stig hvort, þegar 21 umferð af 38 er lokið. 

Liverpool er svo í 4. sæti með 35 stig, tveimur stigum á undan Brentford og þremur á undan Newcastle og Manchester United.

Nú tekur við bikarhelgi þar sem Arsenal sækir Portsmouth heim á sunnudaginn en Liverpool tekur á móti Barnsley á mánudagskvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira