Fótbolti

Glódís þarf að sjá á eftir vin­konu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Georgia Stanway mun yfirgefa Bayern Munchen í sumar og því þarf Glódís að sjá á eftir góðum félaga.
Georgia Stanway mun yfirgefa Bayern Munchen í sumar og því þarf Glódís að sjá á eftir góðum félaga. Marcel Engelbrecht - firo sportphoto/Getty Images

Enska landsliðskonan Georgia Stanway er á förum frá Bayern Munchen í Þýskalandi þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur eftir fjögur ár í Bæjaralandi.

Hin 27 ára Stanway kom til Bayern frá Manchester City á Englandi  sumarið 2022 og skrifaði undir fjögurra ára samning. Hún hefur unnið þýska meistaratitilinn öll þrjú ár sín með liðinu og vonast til að vinna þann fjórða áður en hún heldur á ný mið í sumar.

Hún tilkynnti á samfélagsmiðlum að hún væri á förum þegar samningur hennar rennur út í sumar.

Stanway hefur verið lykilmaður á miðju Bæjara og er góð vinkona íslensku landsliðskonunnar Glódísar Perlu Viggósdóttur sem er fyrirliði liðsins. Stanway er líklega á heimleið til Englands en hún var hluti af enska landsliðinu sem vann EM síðasta sumar sem og mótið þar á undan.

Líklegt þykir að Stanway fari til Arsenal sem er sagt leiða kapphlaupið um undirskrift hennar. Hún myndi þar sameinast fjölmörgum samherjum úr enska landsliðinu en landsliðskonurnar Leah Williamson, Chloe Kelly, Beth Mead, Alessia Russo, Michelle Agyemang, Lotte Wubben-Moy og Taylor Hinds eru allar á mála hjá Skyttunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×