Lífið

Á móti vasa­peningum og myndi aldrei láta barn fá debet­kort

Stefán Árni Pálsson skrifar
Björn Berg fer yfir fjármálalæsi ungmenna í Íslandi í dag í gærkvöldi.
Björn Berg fer yfir fjármálalæsi ungmenna í Íslandi í dag í gærkvöldi.

Fjármálaráðgjafinn Björn Berg Gunnarsson er afar vinsæll og eftirsóttur í sínum störfum, enda talar hann ávallt um peninga og fjármál á mannamáli. Ísland í dag settist niður með Birni Berg og bað um góð ráð fyrir foreldra þegar kemur að fjármálum barna og ungmenna.

Óvænt hitamál og segir Björn Berg að foreldrar ættu að hætta að kvabba í skólunum um að kenna fjármálalæsi og taka málin í sínar eigin hendur. Kenna börnunum sjálfum og passa að umræður um peninga og fjármál séu ávallt á jákvæðum nótum.

Í meðfylgjandi innslagi var farið yfir ýmis þroskastig barna, allt frá fæðingu til átján ára aldurs, og fáum góð ráð í hverju skrefi um hvernig má kenna börnum og ungmennum að fara vel með peninga. Markmiðið þegar til lengri tíma er litið er auðvitað að börnin verði fjárhagslega sjálfstæð þegar þau verða fullorðin og flytji einhvern tímann út úr foreldrahúsum.

Stærðarinnar verkefni

„Ég hef talsvert verið að bæði halda námskeið og svona aðeins að skrifa um nauðsyn þess að foreldrar taki ábyrgð á þessu sjálfir. Það er ekki lausn á neinu vandamáli að fussa og sveia yfir því að skólarnir séu ekki nógu duglegir. Og þá er þetta bara stærðarinnar verkefni sem allir foreldrar á landinu þurfa að taka mjög alvarlega og sjá til þess að börn þeirra geti staðið á eigin fótum og farið með peninga á hverju þroskastigi, sem getur auðvitað verið ákveðin kúnst,“ segir Björn en á maður að byrja frá fyrsta degi?

„Ekkert endilega. Ég held að það sé ekkert nauðsynlegt. Þrátt fyrir að það sé mjög algengt á Íslandi að verið sé að spara fyrir börn, þá er það í rauninni ekkert sérstaklega nauðsynlegt. Það sem mun koma til með að gagnast þeim miklu frekar er að þeim sé kennt að gera þetta sjálf. Ég myndi kannski frekar hugsa um það að ein helsta forsenda þess að börnin muni geta haft það gott til lengri tíma litið er að foreldrarnir hafi það gott. Er það rétt að þau passi upp á sín fjármál? Að það sé ekki verið að steypa sér í skuldir vegna fæðingarorlofsins eða þess tíma sem barnið er ungt? Að svo sé gripið tækifærið þegar að krakkarnir eru orðnir nógu gamlir til þess að það sé aðeins hægt að byrja.“

Hér að neðan má sjá þáttinn í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.