Erlendar

Malbranque settur á sölulista
Franski miðjumaðurinn Steed Malbranque hefur verið settur á sölulista hjá enska úrvaldeildarliðinu Fulham eftir að hann hafnaði tilboði félagsins um nýjan samning. Forráðamenn Fulham segjast hafa boðið hinum hæfileikaríka Frakka besta samning í sögu félagsins, en hafa afráðið að skella honum á sölulista eftir að hann hafnaði tilboðinu.

West Ham yfir í hálfleik
West Ham hefur yfir 2-1 þegar flautað hefur verið til hálfleiks í úrslitaleiknum í enska bikarnum á Þúsaldarvellinum í Cardiff. Jamie Carragher kom West Ham yfir með sjálfsmarki og Dean Ashton bætti við öðru marki skömmu síðar. Djibril Cisse minnkaði muninn fyrir Liverpool.
Cisse minnkar muninn
Franski sóknarmaðurinn Djibril Cisse er búinn að minnka muninn fyrir Liverpool gegn West Ham í úrslitaleik enska bikarsins og staðan því orðin 2-1 fyrir West Ham. Cisse skoraði með þrumuskoti eftir góðan undirbúning frá Steven Gerrard. Leikurinn hefur verið einstaklega fjörugur fram til þessa og er í beinni útsendingu á Sýn.

Crespo fer frá Chelsea
Jose Mourinho hefur gefið það út að hann sé á höttunum eftir nýjum framherja, því hann ætli að leyfa Argentínumanninum Hernan Crespo að yfirgefa herbúðir liðsins í sumar. "Hernan er frábær leikmaður, en hefur ekki farið leynt með ósk sína að snúa aftur til Ítalíu og ég hef ákveðið að leyfa honum það," sagði Mourinho.
West Ham komið í 2-0
West Ham hefur náð tveggja marka forystu gegn Liverpool í úrslitaleik enska bikarsins. Lundúnaliðið komst yfir á 21. mínútu með sjálfsmarki Jamie Carragher og Dean Ashton bætti við öðru marki á 28. mínútu eftir mistök Jose Reina í marki Liverpool.

Alonso á ráspól
Heimamaðurinn Fernando Alonso verður á ráspól í Spánarkappakstrinum í Formúlu 1 á morgun eftir að hann náði besta tímanum í tímatökum í dag. Félagi hans hjá Renault, Giancarlo Fisichella náði öðrum besta tímanum og Michael Schumacher varð að gera sér þriðja sætið að góðu.

Byrjunarliðin klár
Nú er búið að tilkynna byrjunarliðin fyrir bikarúrslitaleik West Ham og Liverpool sem hefst klukkan 14 og er sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn.

Shawn Marion frábær gegn Clippers
Shawn Marion fór á kostum í nótt þegar Phoenix Suns lagði LA Clippers á útivelli í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar 94-91. Marion skoraði 32 stig, hirti 19 fráköst og stóð sig frábærlega í vörninni þar sem honum var fengið að taka Sam Cassell úr umferð.

Miami lagði New Jersey
Dwayne Wade lét ekki olnbogaskot og blóðugt andlit stöðva sig á lokasprettinum í nótt þegar hann tryggði Miami góðan útisigur á New Jersey Nets í undanúrslitum Austurdeildarinnar 103-92. Þetta var fyrsti leikurinn í einvíginu sem talist gat spennandi, en það var Wade sem gerði gæfumuninn fyrir Miami þegar hann skoraði helming 30 stiga sinna í leiknum á síðustu fjórum og hálfri mínútunni.

Chris Sutton farinn frá Birmingham
Forráðamenn Birmingham hafa ákveðið að endurnýja ekki samning framherjans Chris Sutton og verður hann því laus allra mála í sumar og er frjálst að yfirgefa félagið. Birmingham er sem kunnugt er fallið í 1. deildina, en þó miklar vonir hafi verið bundnar við komu Sutton á sínum tíma, náði hann sér aldrei á strik með liðinu og skoraði aðeins eitt mark í ellefu leikjum.

Clippers - Phoenix í beinni á NBA TV
Þriðji leikur LA Clippers og Phoenix Suns verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV klukkan 2:30 í nótt, en leikurinn fer fram á heimavelli Clippers í Staples Center í Los Angeles. Liðin hafa unnið sitt hvorn leikinn í einvíginu, sem hefur verið eitt það fjörugasta í annari umferðinni.

Staðfestir hugsanlega brottför
Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko hefur nú staðfest að þær fréttir sem af honum bárust í morgun séu réttar - hann sé að íhuga að yfirgefa herbúðir AC Milan. Shevchenko segir að hann íhugi að fara af fjölskylduástæðum.

Robinson féll á lyfjaprófi og fær fimm leikja bann
Hinn gamalreyndi framherji New Jersey Nets, Clifford Robinson, hefur enn og aftur komið sér í vandræði vegna eiturlyfjaneyslu og í dag var hann dæmdur í fimm leikja bann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Forráðamenn deildarinnar gefa aldrei upp hvaða lyf það eru sem um ræðir þegar leikmenn falla á prófun, en í þessu tilfelli má gera ráð fyrir að um kannabisefni hafi verið að ræða.

Leitin að eftirmanni Curbishley gengur vel
Stjórnarformaður Charlton Athletic segir að fresturinn til að sækja um starf knattspyrnustjóra hjá liðinu í kjölfar afsagnar Alan Curbishley sé runninn út og segir hann að næstu dagar og vikur fari í að ræða við þá stjóra sem stjórninni líst hvað best á.

Alonso í stuði
Heimsmeistarinn Fernando Alonso náði bestum tíma aðalökumanna á æfingum fyrir tímatökur í Spánarkappakstrinum sem fram fer á sunnudaginn. Alonso var reyndar sektaður fyrir að aka of hratt á viðgerðarsvæðinu í fyrri umferð sinni, en hann náði þriðja besta tíma allra á æfingunni. Besta tímanum náði Anthony Davidson, æfingaökumaður hjá Honda-liðinu.

Gatling með nýtt heimsmet í 100m hlaupi
Bandaríski spretthlauparinn Justin Gatling setti nýtt heimsmet í 100 metra hlaupi í dag þegar hann kom í mark á tímanum 9,76 sekúndum á móti í Katar. Eldra metið átti Jamaíkumaðurinn Asafa Powell, en það var 9,77 sekúndur.

Ólöf lék vel í dag
Ólöf María Jónsdóttir lauk keppni á öðrum deginum á Spánarmótinu í golfi á höggi undir pari í dag og á því mjög góða möguleika á að komast í gegn um niðurskurðinn á mótinu. Ólöf lék á pari í gær og er í hópi efstu manna á mótinu enn sem komið er.

Boothroyd sleppur við refsingu
Adrian Boothroyd, knattspyrnustjóri Watford í ensku 1. deildinni, sleppur við leikbann eftir að hafa misst stjórn á sér í síðari leik Watford og Crystal Palace í úrslitakeppni 1. deildar á dögunum. Boothroyd lenti í riskingum á hliðarlínunni og litlu munaði að allt logaði í slagsmálum milli leikmanna.

Alonso tæpur hjá Liverpool
Leikur ársins á Englandi fer fram á morgun, sjálfur úrslitaleikurinn í enska bikarnum milli Liverpool og West Ham. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn og hefst útsending klukkan 13. Miðjumaðurinn Xabi Alonso hjá Liverpool er tæpur vegna ökklameiðsla og hjá West Ham hafa þeir Dean Ashton og Matthew Etherington ekki geta æft í dag vegna meiðsla en hafa þó ekki verið afskrifaðir fyrir morgundaginn.

Fleiri hneykslismál í uppsiglingu?
Fréttir á Ítalíu herma að þar í landi sé að hefjast ítarlega rannsókn í knattspyrnuheiminum eftir að grunur vaknaði um að úrslitum leikja í A-deildinni þar í landi hafi verið hagrætt með mútum. Forráðamenn Lazio, Juventus og Fiorentina liggja undir grun, auk þess sem HM dómarinn Massimo De Santis er sagður liggja undir grun.

McClaren er í einstakri stöðu
Bryan Robson segir að Steve McClaren, sem nýverið var ráðinn næsti landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, sé í einstakri aðstöðu til að gera kollegum sínum á Englandi stóran greiða með því að standa sig vel í starfi þegar hann tekur við eftir HM í sumar.

Shevchenko vill fara til Englands
Eigandi AC Milan, Silvio Berlusconi, hefur viðurkennt að úkraínski framherjinn Andriy Shevchenko sé á leið til Englands. Forsætisráðherran fráfarandi viðurkenndi þetta við hóp nemenda sem heimsóttu skrifstofu hans í dag. Umboðsmaður framherjans segir ekki loku fyrir það skotið að hann fari frá Milan í sumar.

Hughes í leyfi hjá Cleveland
Bakvörðurinn Larry Hughes hjá Cleveland Cavaliers hefur fengið stutt leyfi frá æfingum eftir að tvítugur bróðir hans lést í gær. Justin Hughes var með hjartagalla og hafði verið við slæma heilsu lengi, en hann féll nokkuð óvænt frá í gær og því hefur Hughes fengið leyfi til að vera með fjölskyldu sinni. Óvíst er hvort hann verður með Cleveland í þriðja leiknum gegn Detroit annað kvöld.

Chelsea vill ekki sleppa Gallas
Englandsmeistarar Chelsea eru ekki á þeim buxunum að leyfa varnarmanninum William Gallas að yfirgefa herbúðir félagsins, en leikmaðurinn hefur gefið það út að hann vilji ólmur fara frá félaginu. Chelsea hefur boðið honum nýjan fjögurra ára samning og í yfirlýsingu frá félaginu sagði; "Við munum ekki óska eftir tilboðum í leikmenn sem við viljum halda í herbúðum liðsins."

Given framlengir
Markvörðurinn Shay Given hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle. Given var einn besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð og hefur hinn þrítugi írski landsliðsmaður nú bundið sig hjá liðinu til ársins 2011.

Prinsinn í grjótið
Fyrrum heimsmeistarinn í hnefaleikum, Prince Naseem Hamed, var í dag dæmdur í 15 mánaða fangelski fyrir gáleysislegan akstur sem olli alvarlegu umferðarslysi í heimabæ hans Sheffield á Englandi. Hamed viðurkenndi brot sitt og er nú á leið í fangelsi, sem þýðir að ekkert verður úr endurkomu hans í hringinn í Bandaríkjunum á árinu eins og til stóð.

Magath sáttur við tvo titla
Felix Magath, stjóri Þýskalandsmeistara Bayern Munchen, segist afar sáttur við að hafa landað tveimur titlum í hús á leiktíðinni og þykir gagnrýnendur liðsins of grimmir þegar þeir velta sér upp úr því að liðið hafi fallið úr leik strax í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar.

Boltinn er hjá þeim
Miðjumaðurinn Joey Barton hjá Manchester City segir að boltinn sé í höndum forráðamanna félagsins þegar kemur að því að framlengja samning hans. Barton gerði allt vitlaust hjá félaginu í vetur þegar hann fór fram á að verða seldur eftir að erfiðlega gekk að smíða nýjan samning handa honum.

Nýr forseti kosinn 2. júlí
Spænska knattspyrnufélagið Real Madrid tilkynnti í dag að nýr forseti yrði kjörinn þann 2. júlí næstkomandi, en mikil upplausn hefur verið í herbúðum liðsins á leiktíðinni. Real getur tryggt sér öruggt sæti í meistaradeildinni með sigri í lokaleik sínum í deildinni gegn Evrópumeisturum félagsliða í Sevilla. Real hefur nú ekki unnið titil í þrjú ár, sem er lengsta gúrkutíð í sögu félagsins.

Spáir að England nái í úrslitaleikinn
Sven-Göran Eriksson er bjartsýnn á gengi sinna manna í enska landsliðinu á HM í sumar og spáir því að ef liðið hafi heppnina með sér muni það ná alla leið í úrslitaleikinn í Berlín þann 9. júlí.