Erlent

Stýrivextir lækka í Taílandi
Seðlabanki Taílands hefur lækkað stýrivexti um 50 punkta og standa vextir bankans nú í 3,5 prósentum. Með lækkuninni er vonast til að með blása lífi í einkaneyslu og auka væntingar og stöðugleika í landinu í kjölfar átaka í fyrra.

Gleðitíðindi fyrir farsímanotendur í Evrópu
Kostnaður við að hringja úr farsíma í Evrópu mun lækka verulega ef ný áætlun Evrópusambandsins gengur í gegn. Lögmenn ESB hafa ákveðið að styðja ákvörðun um að setja þak á rokkandi farsímagjöld. Sú upphæð sem farsímanotendur eru nú rukkaðir fyrir að nota farsímana í útlöndum, mun lækka um allt að 75 prósent.

Sjö bandarískir hermenn létust í Írak
Sjö bandarískir hermenn létust í sprengjuárásum í Írak í gær. Flestir létust í vegasprengjum samkvæmt upplýsingum frá bandaríska hernum. Í verstu árásinni létust þrír og tveir slösuðust þegar herdeildin lenti í margföldum sprengingum. Í yfirlýsingu frá hernum var staðsetning árásanna ekki gefin upp.

Tveir teknir með sprengjur í Tyrklandi
Par var handtekið af lögreglu í Adana í Tyrklandi í morgun með fimm kg af sprengiefni í fórum sínum. Ríkisrekna fréttastofan Anatolian skýrði frá þessu. Ekki er ljóst hvort fólkið tengist sprengjutilræðinu í höfuðborginni Ankara í gær. En þar létust sex manns og rúmlega 100 slösuðust.

Lenovo bætir afkomuna verulega
Kínverski tölvuframleiðandinn Lenovo, sem framleiðir fartölvur undir eigin nafni og merki IBM, skilaði hagnaði upp á rúma 161 milljón bandaríkjadala, jafnvirði 10 milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Afkoman er langt umfram væntingar.

Ankara sprenging var sjálfsmorðsárás
Nú er ljóst að sprengjutilræðið sem varð sex manns að bana og særði meira en 100 manns í Ankara í Tyrklandi í gær var sjálfsmorðsárás. Kemal Onal ríkisstjóri höfuðborgarinnar tilkynnti í dag að rannsóknir á vettvangi leiddu þetta í ljós. Sprengingin varð á háannatíma við verslunarmiðstöð í Ulus sem er fjölfarið verslunar og markaðshverfi.

Spá lægri farsímakostnaði
Gert er ráð fyrir því að kostnaður vegna farsímanotkunar á milli landa innan aðildarríkja Evrópusambandsins komi til með að lækka um allt að 75 prósent þegar samþykkt verður að setja þak á reikigjöld farsímafyrirtækja. Evrópusambandið styður aðgerðir til að lækka reikigjöldin en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á eftir að gefa samþykki sitt. Það þykir hins vegar einungis vera formsatriði.

Tólf dæmdir fyrir morð á serbneskum forsætisráðherra
Serbneskur dómstóll hefur dæmt 12 menn fyrir morðið á hinum vesturlandasinnaða forsætisráðherra Zoran Djindjic í Belgrad árið 2003. Allir hinna dæmdu höfðu neitað ákærunum, en þeir eru meðal annars meðlimir öryggislögreglunnar og eru taldir tengjast mafíuforsprökkum.

Níu ára njósnamyndband Litvinenko birt
Níu ára gamalt myndband með fyrrum njósnaranum Alexander Litvinenko og tveimur öðrum rússneskum njósnurum hefur litið dagsins ljós. Myndbandið átti einungis að birta ef einhver mannanna yrði myrtur. Þar segja þeir frá fyrirskipunum að ofan um að myrða háttsetta menn, eins og útlæga viðskiptamanninn Boris Berezovsky. Mennirnir segjast einnig óttast um líf sitt og sinna nánustu.
Líkur á verkfalli hjá SAS aukast
Verkalýðsfélag áhafnarmeðlima flugfélagsins SAS hafnaði í dag lokatilboði samningamanna og þar með aukast líkur á verkfalli mikið. Áður hafði félagið sagt að 800 manns muni leggja niður vinnu þann 25. maí vegna vinnuskilyrða og launa. „Við viljum lausn á vinnutíma þar sem þetta var ekki í tilboðinu frá samningamönnunum. Þetta snýst ekki eingöngu um laun. Boltinn er hjá SAS núna.“ sagði aðalsamningamaður félagsins í morgun.
20 létust og 30 særðust í sjálfsmorðsárás
20 manns létust og rúmlega 30 særðust í sjálfsmorðssprengjuárás á kaffihúsi norðaustur af Bagdad í morgun. Lögregla þar skýrði frá þessu. Sprengjumaðurinn var í vesti með sprengiefnum þegar hann gekk inn á kaffihúsið í bænum Mandali. Bærinn er um 100 kílómetra norðaustur af Bagdad, nálægt landamærum Írans og Íraks. Í honum búa mestmegnis sjíar af kúrdískum uppruna.
Demókratar tengja fjármagn ekki lengur við brottför hermanna
Leiðtogar demókrata hafa hætt við að fyrirætlanir sínar um að tengja fjármagn til hersins við brottför bandarískra hermanna frá Írak. Ákvörðunin var tekin eftir margar vikur af viðræðum en George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hafði hótað að beita neitunarvaldi gegn lögunum.
Börn í Írak þurfa meiri aðstoð
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir aðstæður írakskra barna gríðarlega alvarlegar. Helmingur þeirra fjögurra milljóna sem hafa flúið heimili sín vegna ástandsins í Írak eru börn. Stofnunin segir þau þurfa meiri aðstoð en alþjóðasamfélagið er nú fært um að veita. Hún hefur nú biðlað til aðildarþjóða að leggja fram fjármagn svo hægt sé að sjá börnunum fyrir bóluefnum, mat, hreinu vatni og menntun.
Rússar segja Bandaríkin brjóta alþjóðalög
Rússar sögðu í morgun að bandaríska þingið hefði brotið alþjóðalög í gær þegar það samþykkti lög gegn verðsamráði olíuframleiðanda. Samkvæmt nýju lögunum geta bandarískir dómstólar sótt mál gegn OPEC, samtökum olíuframleiðenda, í bandaríkjunum. Hingað til hafa samtökin notið friðhelgi gagnvart bandarískum lögum.
AC Milan og Liverpool mætast í kvöld
AC Milan og Liverpool mætast í úrslitaleika meistaradeildar Evrópu í Aþenu í Grikklandi í kvöld. Liðin mættust einnig árið 2005 og þá bar Liverpool sigur úr býtum í einum eftirminnilegasta knattspyrnuleik sögunnar. Lögregla í Grikklandi er með mikinn viðbúnað vegna tugþúsunda aðdáenda liðanna tveggja. Þá getur liðið sem ber sigur úr býtum átt von á umtalsverðum fjárhagslegum ávinningi. Leikurinn verður sýndur á Sýn og hefst útsending klukkan sex í kvöld.
Bretar ræða við Rússa um hugsanlegt framsal
Bretar halda í dag áfram viðræðum við Rússa um mögulegt framsal á Andrei Lugovoy, sem ákærður er fyrir að hafa eitrað fyrir Alexander Litvinenko. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að Bretar myndu gera allt sem þeir gætu í málinu. Rússar hafa hins vegar bent á að stjórnarskrá þeirra heimili ekki að framselja Rússa til annarra landa.
Friðargæsluliðar seldu uppreisnarmönnum vopn
Pakistanskir friðargæsluliðar í Kongó seldu uppreisnarmönnum, sem þeir áttu að vera að afvopna, vopn fyrir gull. Breska ríkisútvarpið, BBC, skýrði frá þessu. Þessir sömu uppreisnarhópar eru sekir um alvarleg mannréttindabrot á meðan borgarastyrjöldinni í Kongó stóð. Viðskiptin áttu sér stað á árinu 2005.
Þúsundir flýja flóttamannabúðir í Líbanon
Þúsundir hafa flúið flóttamannabúðir í norðurhluta Líbanon eftir þriggja daga átök herskárra múslima og stjórnarhermanna.

Éta lifandi kýr gestum til skemmtunar
Starfsmenn dýragarða í Kína hafa orðið uppvísir af ómannúðlegri meðferð á dýrum. Birnir og apar eru látnir vinna erfiðisverk á meðan tígrisdýrum eru mötuð á lifandi dýrum, gestum til skemmtunar. Fjölskylduskemmtun segja rekstraraðilar.
Segist saklaus
Rússar ætla ekki að framselja fyrrverandi KGB mann sem Bretar ætla að ákæra fyrir morðið á njósnaranum Alexander Litvinenko. Sá ákærði segir pólitískar hvatir að baki málinu af hálfu Breta - hann hafi ekki myrt Litvinenko.

Öflug sprenging í Ankara
Að minnsta kosti 4 týndu lífi og rúmlega 60 særðust þegar sprengja sprakk á háannatíma við verslunarmiðstöð í Ankara, höfuðborg Tyrklands, nú síðdegis. Erdogan forsætisráðherra segir hryðjuverk sem verði refsað fyrir. Engin samtök hafa lýst illvirkinu á hendur sér.

Sprenging í Tyrklandi
Sprengja sprakk í Ankara höfuðborg Tyrklands nú fyrir stundu. Fréttastofa CNN hefur eftir borgarstjóranum í Ankara að fjórir hafi látist í sprengingunni sem varð við inngang verslunarkjarna í Ulus hverfi. 56 munu vera særðir.

Spá óvenju virku fellibyljatímabili
Yfirvöld í Bandaríkjunum spá því að komandi fellibyljatímabil verði virkara en í meðalári, með um 13 til 17 storma, þar af sjö til tíu sem verði að fellibyljum. Af þeim verði þrír til fimm afar sterkir, eða í flokk þrjú, þar sem vindhviður eru um 180 km á klukkustund.

Demókratar ógna innflytjendafrumvarpi
Öldungardeildarþing Bandaríkjanna mun í dag ræða og greiða atkvæði um tvær breytingartillögur demókrata á innflytjendafrumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu. Í síðustu viku féllst George Bush Bandaríkjaforseti á tveggja flokka málamiðlunartillögu sem var þrjá mánuði í undirbúningi. Afgreiðslu á frumvarpinu hefur verið frestað um tvær vikur á meðan þingið fjallar um það.

Dreamliner að líta dagsins ljós
Flugvélasmiðir hjá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing eru þessa dagana að ljúka við að setja saman nýjustu farþegaþotu fyrirtækisins, Dreamliner787. Hlutirnir eru framleiddir víða um heim en settir saman í námunda við Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Horft er til þess að tilraunaflug vélanna hefjist í ágúst og verði þær fyrstu afhentar í maí á næsta ári.
Stærsta tónlistarútgáfa í heimi verður til
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið evrópska útgáfufyrirtækinu Universal Music græna ljósið á að kaupa þýska útgáfu- og afþreyingafyrirtækið BMG Music Publishing. Kaupverð nemur 1,63 milljörðum evra, jafnvirði rúmra 137 milljarða íslenskra króna. Með kaupunum verður til stærsta tónlistarútgáfa í heimi.
Vopnahlé boðað í Líbanon
Fatah al-Islam ætlar að leggja niður vopn klukkan 11:30 að íslenskum tíma í von um að friður og ró komist á í einhvern tíma. Talsmaður hópsins sagði frá þessu nú í morgun og sagði að vopnahléið myndi halda svo lengi sem líbanski herinn gerði ekki árás. Hópurinn hefur barist við líbanska herinn í þrjá daga samfleytt. Hann tilkynnti í morgun að liðsmenn hans hefðu staðið á bak við sprengjutilræði í borginni en það hefur enn ekki verið staðfest.

Alitalia fellir niður 400 flug
Ítalska flugfélagið Alitalia hefur fellt niður næstum 400 flug í dag vegna verkfalls flugliða og flugumferðarstjóra. Verkfallið tekur til bæði innan- og utanlandsflugs og stendur til klukkan 15 í dag að íslenskum tíma. Deila stendur milli aðilanna og flugfélagsins vegna kjarasamninga.

Lugovoy ákærður fyrir morðið á Litvinenko
Rússinn Andrei Lugovoy verður ákærður fyrir morðið á fyrrum njósnaranum Alexander Litvinenko. Saksóknari bresku krúnunnar skýrði frá þessu í morgun. „Í dag komst ég að þeirri niðurstöðu að sönnunargögnin sem lögreglan sendi okkur nægja til þess að ákæra Andrei Lugovoy fyrir að hafa eitrað fyrir og þannig myrt Alexander Litvinenko." sagði Ken MacDonald, ríkissaksóknari Bretlands, á fréttamannafundi.

Draugabílstjóri í Danmörku mætir fyrir rétt
Fertugur karlmaður sem varð fjórum að bana á E45 þjóðveginum í Danmörku síðastliðinn sunnudag, mætir fyrir rétt í dag. Maðurinn var undir áhrifum áfengis þegar hann keyrði yfir á öfugan vegarhelming við Litlubeltisbrúnna á Jótlandi. Hann keyrði um 18 km leið á móti umferðinni áður en hann hafnaði framan á fólksbíl.