Guðjón Baldvinsson er orðinn leikmaður Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í fótbolta, en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í dag.
Þetta kemur fram á fótbolti.net, en Guðjón kemur til Stjörnumanna frá Nordsjælland í Danmörku. Hann var þar áður á mála hjá Halmstad í Svíþjóð.
Guðjón er uppalinn hjá Stjörnunni og spilaði með liðinu í 1. og 2. deild frá 2003 til 2007. Þá gekk hann í raðir KR, en hann skoraði tíu mörk í Pepsi-deildinni 2010 fyrir KR og átta mörk sumarið 2011. Hann hefur einnig spilað með GAIS í Svíþjóð.
Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir Stjörnuna sem er í sjötta sæti með fimmtán stig eftir fyrri umferðina í Pepsi-deildinni.

