Erlent

Alexis Tsipras segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands. Vísir/AFP
Alexis Tsipras hefur tilkynnt um afsögn sína sem forsætisráðherra Grikklands.  Búist er við að boðað verði til þingkosninga í landinu 20. september næstkomandi.

Tsipras sagði í ávarpi að hann myndi leita til grískra kjósenda til að fá úr því skorið hvort halda eigi áfram með áætlun stjórnarinnar. Þá sagði hann Grikki verða að ákveða hvort stjórn hans hafi komið fram fyrir hönd Grikkja af hugrekki í samskiptum sínum við lánardrottna.

Í frétt Guardian segir að sjónvarpsávarp Tsipras hafi fljótlega breyst í kosningaræðu þar sem hann hrósaði stjórn sinni og sagðist stoltur af þeim tíma sem hann gegndi embætti forsætisráðherra. Sagði hann Evrópu ekki vera þá sömu og þegar Syriza tók við völdum í Alþenu í janúar.

Tsipras hefur að undanförnu þurft að kljást við uppreisn innan eigin flokks, Syriza, en um þriðjungur þingflokksins sat hjá eða greiddi atkvæði gegn samkomulagi sem Grikklandsstjórn gerði við lánardrottna sína um skattahækkanir og niðurskurð í skiptum fyrir 86 milljarða evra lán.

Fyrirhugaðar aðhaldsaðgerðir hafa vakið mikla reiði meðal fjölda liðsmanna Syriza, en flokkurinn komst til valda í ársbyrjun eftir að hafa lofað að koma í veg fyrir einkavæðingu og niðurskurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×