Fótbolti

PSG setur leikmann í bann fyrir að móðga Blanc

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aurier er í vandræðum.
Aurier er í vandræðum. vísir/getty
Paris Saint-Germain hefur sett hægri bakvörðinn Serge Aurier í ótímabundið bann fyrir að móðga Laurent Blanc, knattspyrnustjóra liðsins.

Aurier var einnig staðinn að því að kalla liðsfélaga sinn, Ángel Di María, trúð þegar hann svaraði spurningum stuðningsmanna PSG á samfélagsmiðlinum Periscope.

Aurier hefur beðist afsökunar á orðum sínum en í samtali við franska fjölmiðla sagði Fílbeinsstrendingurinn:

„Það sem ég gerði var heimskulegt og óafsakanlegt. Ég sé mjög eftir því. Ég vil biðja stjórann og stuðningsmenn liðsins afsökunar. Ég tek afleiðingum gjörða minna og get aðeins þakkað Laurent Blanc fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig hjá PSG.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Aurier kemur sér í vandræði vegna ummæla á samfélagsmiðlum en í fyrra var hann dæmdur í þriggja leikja bann frá Evrópuleikjum eftir að hafa móðgað hollenska dómarann Björn Kuipers á Facebook.

Kuipers rak þá Zlatan Ibrahimovic af velli í leik PSG og Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þessi sömu lið mætast einmitt aftur í 16-liða úrslitunum í ár en fyrri leikur þeirra fer fram á Parc des Princes í París á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×