Andri Berg Haraldsson, leikmaður FH í Olís-deild karla í handbolta, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Hafnafjarðarliðið.
Fram kemur á handboltavefnum fimmeinn.is að Andri Berg er að yfirgefa uppeldisfélagið sem hann hefur spilað lykilhlutverk hjá undanfarin tímabil.
Andri Berg spilaði 20 af 22 leikjum FH í deildinni á síðustu leiktíð er það hafnaði í sjötta sæti. FH-ingar töpuðu svo í oddaleik fyrir Aftureldingu í átta liða úrslitum deildarinnar.
Andri, sem hefur einnig spilað fyrir Fram og Víking, er afar ósáttur við viðskilnaðinn og vandar FH-ingum ekki kveðjurnar í viðtali við fimmeinn.
„Þeir höfðu ekki áhuga á að hafa mig áfram og í dag er framhaldið óráðið. Þetta er hið furðulegasta mál þykir mér og kaldar kveðjur frá uppeldisfélaginu,“ segir Andri Berg sem er nú í leit að nýju félagi.
