Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var í dag úrskurðaður í eins leiks bann fyrir ummæli sem hann lét hafa eftir sér í viðtali á Vísi í síðustu viku.
Sjá einnig: Einar vill fá afsökunarbeiðni frá dómurunum
Í ofangreindu viðtali gagnrýndi Einar störf dómaranna í leik Stjörnunnar og Aftureldingar um þarsíðustu helgi en eftir þann leik fékk hann að líta rauða spjaldið. Einar var dæmdur í eins leiks bann vegna þess í síðustu viku.
Segir í úrskurði aganefndar HSÍ sem birtur var í dag að Einar hafi með ummælum sínum vegið að „heiðarleika og hlutleysi dómara þó hann hafi ekki sagt það berum orðum.“
Enn fremur segir að ummæli Einars á vefmiðlunum Vísi og fimmeinn.is teljist til skaða fyrir handknattleik á landinu.
Einar verður því í leikbanni þegar Stjarnan mætir Haukum í TM-Höllinni á fimmtudagskvöld.

