Í kjölfar hvarfs Birnu Brjánsdóttur sem fannst látin á sunnudag hefur sprottið upp umræða í samfélaginu um öryggi fólks á næturlífi Reykjavíkur. Konur eru líklegri en karlar til að upplifa óöryggi í miðbæ Reykjavík að kvöld- eða næturlagi. Þá grípa konur oft til ráðstafana ef ske kynni að ráðist yrði á þær. Þær eru almennt ekki meðvitaðar um staðsetningu eftirlitsmyndavéla í miðbæ Reykjavíkur og upplifa frekar óöryggi á þeim stöðum þar sem ekki eru myndavélar. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, er einn af þeim sem skoðað hefur öryggi fólks í miðbæ Reykjavíkur. „Ég hef verið að spyrja um öryggi fólks í miðbænum og notað almennt úrtak íslendinga, 18 ára og eldri. Bæði karlar og konur spurð að því hvort viðkomandi upplifi sig öruggan einan á gangi að kvöldlagi eða næturlagi í miðborg Reykjavíkur. Það hefur alltaf það sama komið fram. Við erum að tala um 70-80 prósent kvenna sem segja sig óörugga einar á gangi. Þannig að það er mjög hátt hlutfall kvenna,“ segir Helgi í samtali við Vísi. „Þetta hefur lengi loðað við miðbæinn að kvöldlagi, ákveðið óöryggi gagnvart því að vera einn á gangi þar. Þetta kemur einhvers staðar frá. Þetta kemur kannski frá eigin reynslu, frá fréttum af málum sem koma upp eða eitthvað slíkt, að menn upplifa borgina óörugga. Hjá körlum er þetta ekki jafn hátt en það er samt sem áður um þriðjungur sem telur sig óöruggann.“Helgi Gunnlaugsson.Vísir/ValgarðurÓöryggið minnkar eftir því sem nær dregur Helgi segir að því fjær sem fólk býr frá miðbæ Reykjavíkur því meira óöryggi upplifir það. „Það eru alls konar svona þættir sem koma inn í þetta. Þeir sem búa fjærst eru óöruggastir og því nær sem þú ferð þá dregur úr óörygginu. En þetta er samt sem áður svolítið hátt. 70-80 prósent kvenna, það er mjög hátt. Jafnvel konur sem búa nálægt miðbænum þær telja sig margar hverjar líka vera óöruggar þó það sé ekki eins hátt hlutfall,“ segir Helgi. „Og það virðist vera, þegar maður sér þessar mælingar á öryggi fólks í miðbænum, þá eru menn að hugsa um þetta. Það er þetta prósent kvenna sem segjast vera óöruggar, þannig að þær eru greinilega að velta þessu fyrir sér.“ Umræða hefur áhrif Helgi hefur einnig athugað öryggistilfinningu fólks í miðbænum í kringum umræðu og umfjöllun um miðborgina. „Það hefur áhrif á því leitinu til að færri fara í bæinn eða menn eru að velta þessu fyrir sér og passa sig, það er að segja í skamman tíma á eftir. Við vorum með þrjár mælingar á eins árs tímabili og þá komu upp einhver mál og það var augljóst að þau höfðu áhrif.“ Helgi bendir þó á að hvarf Birnu Brjánsdóttur sé óvenjulegt í íslensku samfélagi og vonar að mál hennar verði ekki til þess að fólk upplifi sig óöruggt. „Maður vonar að fólk fari ekki að upplifa sig mjög óöruggann í okkar umhverfi. Að þetta verði ekki þannig að þetta hafi þau áhrif að þarna sé kominn einhver nýr kafli í sögu íslands. Vegna þess að þetta mál er það óvenjulegt og vonandi hefur það ekki nema bara skammtímaáhrif. En það breytir því samt ekki að auðvitað þarf alltaf að hugsa um hvernig við getum aukið öryggi fólks í okkar eigin umhverfi, eins og í miðbænum. Og þar held ég að þurfi að koma til aukinn sýnileiki lögreglu, staðirnir sjálfir þurfa að fylgjast með þessu og svo auðvitað að við borgararnir fylgist með hvor öðrum.“Björk Hólm Þorsteinsdóttir.Konur ganga með lykla milli fingrannaBjörk Hólm Þorsteinsdóttir hefur undanfarið unnið að meistararitgerð í þjóðfræði um öryggistilfinningu kvenna í miðborginni. Hún segir að hugmyndin að viðfangsefninu hafi kviknað eftir að hún hafi verið í gleðskap og upp hafi komið umræða um að konur gangi með lykla á milli fingranna á leið heim úr miðbænum, til að geta beitt fyrir sig ef þær verða fyrir áreiti. Rætt var við Björk í þættinum Harmageddon á X-inu 97,7 í gær. „Ég held að hugsunin á bakvið þetta sé aldrei sú að það þurfi endilega að nota þetta. Heldur er þetta eitthvað sem ég gríp til. Ég hef lyklana milli fingranna ofan í vasanum og þetta í raun og veru nær ekki lengra en það. Ég tjái mig um þetta og þá kemur strax önnur og segir „ég myndi alltaf hafa einn putta inni í lyklakippunni svo þú missir ekki lyklana ef þú þarft að slá til einhvers.“ Og ég hugsaði að það væri frábær punktur. Á sama tíma hugsaði ég hvað þetta væru svakalegar umræður,“ segir Björk. „Það verður í raun til þess að mig langar að skoða þetta betur. En á sama tíma er ég búin að vera að velta fyrir mér eftirlitsmyndavélum. Umræðan og orðræðan í kringum uppsetningu eftirlitsmyndavéla hefur oft miðað að því að eiga að tryggja öryggi kvenna oftar en ekki. Það var gerð til dæmis rannsókn þar sem allar myndavélar í miðbæ Reykjavíkur voru kortlagðar árið 2010. Í einu af viðtölunum sem tekin voru þar, þar sem tvær konur voru að spyrja, sagði einn maður sem vann á bak við myndavélarnar „Viljið þið ekki vera öruggar þegar þið eruð að labba heim?“ Þannig að hann beindi orðum sínum til þeirra, tveggja ungra kvenna. Það er eins og þetta sé sett upp fyrir ungar konur. Það sem mér fannst áhugavert að kanna þá betur er hvort að þetta plan með að eiga tryggja öryggi kvenna er í rauninni að skila sér í reynsluheim kvenna.“ Eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur er ætlað að auka öryggi fólks, en auka myndavélarnar öryggiskennd kvenna? „Fljóta svarið er nei. Ég hef lokið rannsókninni þó ég sé ekki búin að skila ritgerðinni en ég tók fjórtán eigindleg viðtöl við konur á aldrinum átján til 58 ára. Auk þess sem ég lagði fyrir spurningaskrá þar sem 151 kona svaraði. Niðurstöðurnar eru í raun mjög sláandi úr því að eftirlitsmyndavélar eru ekki að þjóna þessu hlutverki,“ segir Birna. „Það eru nokkrir þættir. Í fyrsta lagi eru langflestar konur sem hafa ekki hugmynd um að það séu eftirlitsmyndavélar markvisst uppsettar víðsvegar í miðborginni og svo er annað að þær sem vita það vita að það eru einhverjar nokkrar myndavélar á vegum lögreglunnar en aðrar myndavélar eru meira og minna bara á vegum verslana sem er kannski ekki settar upp til að þjóna hagsmunum hins almenna borgara heldur miklu frekar hagsmunum verslunarinnar“Björk bendir einnig á að þó að myndavélar séu til staðar komi þær ekki í veg fyrir ofbeldi og nýtist meira eftir að glæpur hefur verið framinn. „Þegar þú ert að labba og upplifir hræðsluna þá bjargar hún þér ekki beint og hún leggur í raun ekkert til annað en að mögulega er hægt að nota hana eftir á. Svo er ég að taka viðtölin akkúrat á þeim tíma þegar það er umræða um að það sé í raun ekkert á bakvið þessar myndavélar. Að margar hverjar eru settar upp en þær séu ekki í gangi eða að það sé ekki upptaka í gangi. Þannig að trúin á þetta hefur kannski ekki verið gert mikið til að viðhalda henni. Þannig að þessar sömu konur, þetta er týpískt dæmi um það sem hið opinbera reynir að gera til að hafa stjórn á einhverslags líðan. Það eru settar upp myndavélar vegna þess að þær eiga að vekja öryggiskennd. Það skilar sér hins vegar ekki til hins almenna borgara, í þessu tilfelli til kvenna, og þá finna þær sér eigin leiðir til að láta sér líða betur.“Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.Lögreglan segir eftirlitsmyndavélakerfið í miðbænum hafa reynst vel í gegnum tíðina en Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að helmingi fleiri vélar þurfi svo vel eigi að vera. Jóhann Karl segir í samtali við Vísi að óalgegnt sé að lögregla fái tilkynningar um að fólki sé veitt eftirför á leið heim um nætur. Hann hvetur þó til þess að fólk tilkynni ef það tekur eftir að því sé veitt eftirför og veiti lögreglu upplýsingar líkt og bílnúmer svo hægt sé að hafa uppi á viðkomandi. Um 20 eftirlitsmyndavélar, sem lögregla hefur beinan aðgang að, eru staðsettar í Kvosinni og í kringum Laugaveg. Lögreglan segir að vélarnar hafi reynst afar vel en þyrftu að vera mun fleiri því of mörg svæði eru ekki í mynd. Þetta kemur heim og saman við rannsókn Bjarkar. „Það er svo erfitt að spyrja hvað nákvæmlega það er sem konur eru hræddar við vegna þess að það er í raun og veru þessi óvissa, það gæti allt gerst. Þær sækja frekar í öryggi, til dæmis að vera í kringum mikið af fólki. Eins og til dæmis að velja frekar að labba upp laugaveg heldur en Hverfisgötu vegna þess að þar eru fleiri á ferli,“ segir Björk. Hún segir konur óöruggastar á þeim stöðum þar sem ekki eru eftirlitsmyndavélar, jafnvel þó þær viti ekki af staðsetningu þeirra. „En það sem mér fannst samt merkilegt þegar ég fór á stúfana og fór að bera saman hvar viðmælendur mínir voru að upplifa mest óöryggi og bera það saman við staðsetningu myndavéla þá er það mjög sláandi að það eru aldrei myndavélar á þessum stöðum,“ segir hún. „Myndavélarnar eru helst þar sem er mikið af fólki og ef eitthvað er um að vera, ef það verða slagsmál kannski þá er að oftast á þessum stöðum. Þannig að það þarf líka að skoða hverjum myndavélunum eru að hjálpa. Á hverja eru myndavélarnar að horfa og hvar? Ef þú ert stressuð að labba hverfisgötu eða grjótaþorpið, sem kom mjög oft upp, sem er mjög huggulegt á daginn en verður oft mjög skuggalegt á kvöldin af því að þar er mikið af skúmaskotum og dökkum skuggasundum. Þetta eru ekki staðir þar sem eru myndavélar og þetta eru aftur, ekki staðir þar sem er mikið af verslunum. Þannig að mér fannst ég oftar en ekki komast að því að myndavélar stæðu fyrir hagsmuni verslana en ekki fólki sem notar borgina.“Sameiginlegur reynsluheimur kvenna „Þessi atburðir sem hafa átt sér stað í liðinni viku eru náttúrulega mjög skelfilegir og renna stoðum undir þessa mýtu sem hefur alltaf verið í gangi um ljóta karlinn sem bíður í myrkrinu og þar fram eftir götunum. En þetta er kynjað. Þó svo að mín rannsókn beinist að upplifunum kvenna og þar af leiðandi hef ég ekki rannsakað upplifun karla en af óformlegum könnunum þá gefur það auga leið að karlmenn eru ekki að upplifa sömu tilfinningar og konur. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það til að kona skilji nákvæmlega hvað þú ert að meina á meðan karl gerir það ekki jafn endilega.“ „Þetta er einhver sameiginlegur reynsluheimur kvenna virðist vera og þetta er í raun og veru. Það má rekja þetta aftur í þennan kynjahalla sem er í okkar þjóðfélagi og kynbundið ofbeldi sem konur verða frekar fyrir.“ Björk segir konur hugsa ósjálfrátt um það hvernig þær geti varist ofbeldi og að áhyggjur kvenna séu raunverulegar. „Ég fékk oft svör um það að konur hefðu menntað sig í sjálfsvörn og allt að því að velta fyrir sér hversu auðvelt það er að rífa utan af þeim ákveðinn fatnað. Ég fékk oftar en tvisvar svör um það að stelpur færu í tvennar sokkabuxur af því að þá væru þær að kaupa sér einhvern mögulegan tíma,“ segir Björk. „Auðvitað er þetta ekki algilt en þetta eru samt sem áður raunverulegar áhyggjur og sama má segja um skófatnað. Mjög margar komu inn á að þær séu alltaf með aðra skó í töskunni til að þurfa ekki að labba á hælaskónum heim og hvað þá ef það er hálka og annað eins. Þetta er, ég líkti þessu við ákveðinn reikning í hausnum sem gerist allt að því sjálfkrafa. Það er ekki mikil orka sem fer í þessar hugsanir vegna þess að þetta er orðið allt að því eðlislægt.“Skemmtistaðurinn Húrra.VísirMargar ábendingar Lögreglunni bárust margar ábendingar vegna hvarfs Birnu og þeirra á meðal var ábending frá konu sem sagði frá árás sem hún varð fyrir ofarlega í Bankastræti aðfaranótt 8. Janúar.Í samtali við Fréttablaðið sagði konan frá því hvernig nokkrir menn réðust að henni þar sem hún var á göngu upp Bankastrætið upp úr klukkan fimm að morgni. Eiginmaður hennar, sem var aðeins ofar í götunni, kom konu sinn i til bjargar og lenti í stympingum við mennina. Þá leitaði önnur kona aðstoð lögreglu vegna gruns um að hafa verið byrlað ólyfjan á skemmtistaðnum Húrra kvöldið sem Birna hvarf. Dyraverðir á Húrra hringdu á sjúkrabíl sem flutti hana á bráðamóttöku. Árið 2015 sagði Vilborg Kristín Þrastardóttir frá reynslu sinni í viðtali við DV, þar sem fimm menn höfðu veitt henni eftirför niður Túngötu í miðborg Reykjavíkur. Fjórir mannanna voru á hlaupum og sá fimmti á bíl. Hún sagði að einn mannanna hefði tekið í öxl sína en hún hafi náð að hlaupa á brott og að mennirnir hafi látið sig hverfa þegar annar vegfarandi kom aðvífandi. Hún sagðist þá ósátt við vinnubrögð lögreglu sem fylgdu málinu ekki eftir. Kynferðisbrotum fer þó fækkandi á milli ára. Árið 2016 voru 252 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þau voru 276 árið 2015. Tilkynningunum fækkaði um tæplega níu prósent. Af þeim voru 117 nauðganir árið 2016 miðað við 126 árið áður. Af þeim 126 nauðgunum sem voru tilkynntar árið 2015 voru 25 þeirra tilkynntar í miðborg Reykjavíkur. Flest tilkynnt kynferðisbrot í miðborginni voru árið 2013 eða 60 talsins, þar af 18 nauðganir. Tilkynntum kynferðisbrot fækkaði árið 2014 og voru þá 28 kynferðisbrot tilkynnt í miðborginni, þar af 15 nauðganir. Einungis liggur fyrir bráðabirgðatölfræði fyrir árið 2016 og því ekki hægt að sjá hversu hátt hlutfall kynferðisbrota var tilkynnt í miðborginni. Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta er lágt hlutfall kynferðisbrota framin á eða við skemmtistaði. Árið 2015 voru 7 nauðganir af þeim 192 sem komu á borð samtakanna sagðar hafa átt sér stað á eða við skemmtistað, eða 3,6 prósent. Þá voru tvær nauðgunartilraunir af 41, eða 4,9 prósent sögð framin á eða við skemmtistaði. Hæsta hlutfallið var af kynferðislegri áreitni eða 15 tilfelli af 152, eða 9,9 prósent. Fréttaskýringar Birna Brjánsdóttir Tengdar fréttir „Ég fer ekkert sjálfviljug í einhver skuggasund“ Myrkrið hefur slæm áhrif á öryggistilfinningu kvenna í miðborg Reykjavíkur og þá efnisgerist ótti þeirra í karlmönnum. 30. október 2015 18:00 Mest lesið Rýming í Neskaupstað og á Seyðisfirði Innlent Vaktin: Vopnahlé tekur gildi á Gasa Erlent Tuttugu manns í rútuslysi Innlent „Ég hef enga hugmynd um hvaða maður þetta er“ Innlent „Gríðarlegt högg“ ef bannið varir til frambúðar Innlent TikTok bann í Bandaríkjunum Erlent Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ferskt upphaf Innlent Stofnaði eigin „meme“-rafmynt rétt fyrir embættistöku Erlent Mun færri slasaðir eftir skíðaslysið en talið var í fyrstu Erlent „Sérstakt gleðiefni og gleður mitt hjarta“ Innlent
Í kjölfar hvarfs Birnu Brjánsdóttur sem fannst látin á sunnudag hefur sprottið upp umræða í samfélaginu um öryggi fólks á næturlífi Reykjavíkur. Konur eru líklegri en karlar til að upplifa óöryggi í miðbæ Reykjavík að kvöld- eða næturlagi. Þá grípa konur oft til ráðstafana ef ske kynni að ráðist yrði á þær. Þær eru almennt ekki meðvitaðar um staðsetningu eftirlitsmyndavéla í miðbæ Reykjavíkur og upplifa frekar óöryggi á þeim stöðum þar sem ekki eru myndavélar. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, er einn af þeim sem skoðað hefur öryggi fólks í miðbæ Reykjavíkur. „Ég hef verið að spyrja um öryggi fólks í miðbænum og notað almennt úrtak íslendinga, 18 ára og eldri. Bæði karlar og konur spurð að því hvort viðkomandi upplifi sig öruggan einan á gangi að kvöldlagi eða næturlagi í miðborg Reykjavíkur. Það hefur alltaf það sama komið fram. Við erum að tala um 70-80 prósent kvenna sem segja sig óörugga einar á gangi. Þannig að það er mjög hátt hlutfall kvenna,“ segir Helgi í samtali við Vísi. „Þetta hefur lengi loðað við miðbæinn að kvöldlagi, ákveðið óöryggi gagnvart því að vera einn á gangi þar. Þetta kemur einhvers staðar frá. Þetta kemur kannski frá eigin reynslu, frá fréttum af málum sem koma upp eða eitthvað slíkt, að menn upplifa borgina óörugga. Hjá körlum er þetta ekki jafn hátt en það er samt sem áður um þriðjungur sem telur sig óöruggann.“Helgi Gunnlaugsson.Vísir/ValgarðurÓöryggið minnkar eftir því sem nær dregur Helgi segir að því fjær sem fólk býr frá miðbæ Reykjavíkur því meira óöryggi upplifir það. „Það eru alls konar svona þættir sem koma inn í þetta. Þeir sem búa fjærst eru óöruggastir og því nær sem þú ferð þá dregur úr óörygginu. En þetta er samt sem áður svolítið hátt. 70-80 prósent kvenna, það er mjög hátt. Jafnvel konur sem búa nálægt miðbænum þær telja sig margar hverjar líka vera óöruggar þó það sé ekki eins hátt hlutfall,“ segir Helgi. „Og það virðist vera, þegar maður sér þessar mælingar á öryggi fólks í miðbænum, þá eru menn að hugsa um þetta. Það er þetta prósent kvenna sem segjast vera óöruggar, þannig að þær eru greinilega að velta þessu fyrir sér.“ Umræða hefur áhrif Helgi hefur einnig athugað öryggistilfinningu fólks í miðbænum í kringum umræðu og umfjöllun um miðborgina. „Það hefur áhrif á því leitinu til að færri fara í bæinn eða menn eru að velta þessu fyrir sér og passa sig, það er að segja í skamman tíma á eftir. Við vorum með þrjár mælingar á eins árs tímabili og þá komu upp einhver mál og það var augljóst að þau höfðu áhrif.“ Helgi bendir þó á að hvarf Birnu Brjánsdóttur sé óvenjulegt í íslensku samfélagi og vonar að mál hennar verði ekki til þess að fólk upplifi sig óöruggt. „Maður vonar að fólk fari ekki að upplifa sig mjög óöruggann í okkar umhverfi. Að þetta verði ekki þannig að þetta hafi þau áhrif að þarna sé kominn einhver nýr kafli í sögu íslands. Vegna þess að þetta mál er það óvenjulegt og vonandi hefur það ekki nema bara skammtímaáhrif. En það breytir því samt ekki að auðvitað þarf alltaf að hugsa um hvernig við getum aukið öryggi fólks í okkar eigin umhverfi, eins og í miðbænum. Og þar held ég að þurfi að koma til aukinn sýnileiki lögreglu, staðirnir sjálfir þurfa að fylgjast með þessu og svo auðvitað að við borgararnir fylgist með hvor öðrum.“Björk Hólm Þorsteinsdóttir.Konur ganga með lykla milli fingrannaBjörk Hólm Þorsteinsdóttir hefur undanfarið unnið að meistararitgerð í þjóðfræði um öryggistilfinningu kvenna í miðborginni. Hún segir að hugmyndin að viðfangsefninu hafi kviknað eftir að hún hafi verið í gleðskap og upp hafi komið umræða um að konur gangi með lykla á milli fingranna á leið heim úr miðbænum, til að geta beitt fyrir sig ef þær verða fyrir áreiti. Rætt var við Björk í þættinum Harmageddon á X-inu 97,7 í gær. „Ég held að hugsunin á bakvið þetta sé aldrei sú að það þurfi endilega að nota þetta. Heldur er þetta eitthvað sem ég gríp til. Ég hef lyklana milli fingranna ofan í vasanum og þetta í raun og veru nær ekki lengra en það. Ég tjái mig um þetta og þá kemur strax önnur og segir „ég myndi alltaf hafa einn putta inni í lyklakippunni svo þú missir ekki lyklana ef þú þarft að slá til einhvers.“ Og ég hugsaði að það væri frábær punktur. Á sama tíma hugsaði ég hvað þetta væru svakalegar umræður,“ segir Björk. „Það verður í raun til þess að mig langar að skoða þetta betur. En á sama tíma er ég búin að vera að velta fyrir mér eftirlitsmyndavélum. Umræðan og orðræðan í kringum uppsetningu eftirlitsmyndavéla hefur oft miðað að því að eiga að tryggja öryggi kvenna oftar en ekki. Það var gerð til dæmis rannsókn þar sem allar myndavélar í miðbæ Reykjavíkur voru kortlagðar árið 2010. Í einu af viðtölunum sem tekin voru þar, þar sem tvær konur voru að spyrja, sagði einn maður sem vann á bak við myndavélarnar „Viljið þið ekki vera öruggar þegar þið eruð að labba heim?“ Þannig að hann beindi orðum sínum til þeirra, tveggja ungra kvenna. Það er eins og þetta sé sett upp fyrir ungar konur. Það sem mér fannst áhugavert að kanna þá betur er hvort að þetta plan með að eiga tryggja öryggi kvenna er í rauninni að skila sér í reynsluheim kvenna.“ Eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur er ætlað að auka öryggi fólks, en auka myndavélarnar öryggiskennd kvenna? „Fljóta svarið er nei. Ég hef lokið rannsókninni þó ég sé ekki búin að skila ritgerðinni en ég tók fjórtán eigindleg viðtöl við konur á aldrinum átján til 58 ára. Auk þess sem ég lagði fyrir spurningaskrá þar sem 151 kona svaraði. Niðurstöðurnar eru í raun mjög sláandi úr því að eftirlitsmyndavélar eru ekki að þjóna þessu hlutverki,“ segir Birna. „Það eru nokkrir þættir. Í fyrsta lagi eru langflestar konur sem hafa ekki hugmynd um að það séu eftirlitsmyndavélar markvisst uppsettar víðsvegar í miðborginni og svo er annað að þær sem vita það vita að það eru einhverjar nokkrar myndavélar á vegum lögreglunnar en aðrar myndavélar eru meira og minna bara á vegum verslana sem er kannski ekki settar upp til að þjóna hagsmunum hins almenna borgara heldur miklu frekar hagsmunum verslunarinnar“Björk bendir einnig á að þó að myndavélar séu til staðar komi þær ekki í veg fyrir ofbeldi og nýtist meira eftir að glæpur hefur verið framinn. „Þegar þú ert að labba og upplifir hræðsluna þá bjargar hún þér ekki beint og hún leggur í raun ekkert til annað en að mögulega er hægt að nota hana eftir á. Svo er ég að taka viðtölin akkúrat á þeim tíma þegar það er umræða um að það sé í raun ekkert á bakvið þessar myndavélar. Að margar hverjar eru settar upp en þær séu ekki í gangi eða að það sé ekki upptaka í gangi. Þannig að trúin á þetta hefur kannski ekki verið gert mikið til að viðhalda henni. Þannig að þessar sömu konur, þetta er týpískt dæmi um það sem hið opinbera reynir að gera til að hafa stjórn á einhverslags líðan. Það eru settar upp myndavélar vegna þess að þær eiga að vekja öryggiskennd. Það skilar sér hins vegar ekki til hins almenna borgara, í þessu tilfelli til kvenna, og þá finna þær sér eigin leiðir til að láta sér líða betur.“Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.Lögreglan segir eftirlitsmyndavélakerfið í miðbænum hafa reynst vel í gegnum tíðina en Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að helmingi fleiri vélar þurfi svo vel eigi að vera. Jóhann Karl segir í samtali við Vísi að óalgegnt sé að lögregla fái tilkynningar um að fólki sé veitt eftirför á leið heim um nætur. Hann hvetur þó til þess að fólk tilkynni ef það tekur eftir að því sé veitt eftirför og veiti lögreglu upplýsingar líkt og bílnúmer svo hægt sé að hafa uppi á viðkomandi. Um 20 eftirlitsmyndavélar, sem lögregla hefur beinan aðgang að, eru staðsettar í Kvosinni og í kringum Laugaveg. Lögreglan segir að vélarnar hafi reynst afar vel en þyrftu að vera mun fleiri því of mörg svæði eru ekki í mynd. Þetta kemur heim og saman við rannsókn Bjarkar. „Það er svo erfitt að spyrja hvað nákvæmlega það er sem konur eru hræddar við vegna þess að það er í raun og veru þessi óvissa, það gæti allt gerst. Þær sækja frekar í öryggi, til dæmis að vera í kringum mikið af fólki. Eins og til dæmis að velja frekar að labba upp laugaveg heldur en Hverfisgötu vegna þess að þar eru fleiri á ferli,“ segir Björk. Hún segir konur óöruggastar á þeim stöðum þar sem ekki eru eftirlitsmyndavélar, jafnvel þó þær viti ekki af staðsetningu þeirra. „En það sem mér fannst samt merkilegt þegar ég fór á stúfana og fór að bera saman hvar viðmælendur mínir voru að upplifa mest óöryggi og bera það saman við staðsetningu myndavéla þá er það mjög sláandi að það eru aldrei myndavélar á þessum stöðum,“ segir hún. „Myndavélarnar eru helst þar sem er mikið af fólki og ef eitthvað er um að vera, ef það verða slagsmál kannski þá er að oftast á þessum stöðum. Þannig að það þarf líka að skoða hverjum myndavélunum eru að hjálpa. Á hverja eru myndavélarnar að horfa og hvar? Ef þú ert stressuð að labba hverfisgötu eða grjótaþorpið, sem kom mjög oft upp, sem er mjög huggulegt á daginn en verður oft mjög skuggalegt á kvöldin af því að þar er mikið af skúmaskotum og dökkum skuggasundum. Þetta eru ekki staðir þar sem eru myndavélar og þetta eru aftur, ekki staðir þar sem er mikið af verslunum. Þannig að mér fannst ég oftar en ekki komast að því að myndavélar stæðu fyrir hagsmuni verslana en ekki fólki sem notar borgina.“Sameiginlegur reynsluheimur kvenna „Þessi atburðir sem hafa átt sér stað í liðinni viku eru náttúrulega mjög skelfilegir og renna stoðum undir þessa mýtu sem hefur alltaf verið í gangi um ljóta karlinn sem bíður í myrkrinu og þar fram eftir götunum. En þetta er kynjað. Þó svo að mín rannsókn beinist að upplifunum kvenna og þar af leiðandi hef ég ekki rannsakað upplifun karla en af óformlegum könnunum þá gefur það auga leið að karlmenn eru ekki að upplifa sömu tilfinningar og konur. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það til að kona skilji nákvæmlega hvað þú ert að meina á meðan karl gerir það ekki jafn endilega.“ „Þetta er einhver sameiginlegur reynsluheimur kvenna virðist vera og þetta er í raun og veru. Það má rekja þetta aftur í þennan kynjahalla sem er í okkar þjóðfélagi og kynbundið ofbeldi sem konur verða frekar fyrir.“ Björk segir konur hugsa ósjálfrátt um það hvernig þær geti varist ofbeldi og að áhyggjur kvenna séu raunverulegar. „Ég fékk oft svör um það að konur hefðu menntað sig í sjálfsvörn og allt að því að velta fyrir sér hversu auðvelt það er að rífa utan af þeim ákveðinn fatnað. Ég fékk oftar en tvisvar svör um það að stelpur færu í tvennar sokkabuxur af því að þá væru þær að kaupa sér einhvern mögulegan tíma,“ segir Björk. „Auðvitað er þetta ekki algilt en þetta eru samt sem áður raunverulegar áhyggjur og sama má segja um skófatnað. Mjög margar komu inn á að þær séu alltaf með aðra skó í töskunni til að þurfa ekki að labba á hælaskónum heim og hvað þá ef það er hálka og annað eins. Þetta er, ég líkti þessu við ákveðinn reikning í hausnum sem gerist allt að því sjálfkrafa. Það er ekki mikil orka sem fer í þessar hugsanir vegna þess að þetta er orðið allt að því eðlislægt.“Skemmtistaðurinn Húrra.VísirMargar ábendingar Lögreglunni bárust margar ábendingar vegna hvarfs Birnu og þeirra á meðal var ábending frá konu sem sagði frá árás sem hún varð fyrir ofarlega í Bankastræti aðfaranótt 8. Janúar.Í samtali við Fréttablaðið sagði konan frá því hvernig nokkrir menn réðust að henni þar sem hún var á göngu upp Bankastrætið upp úr klukkan fimm að morgni. Eiginmaður hennar, sem var aðeins ofar í götunni, kom konu sinn i til bjargar og lenti í stympingum við mennina. Þá leitaði önnur kona aðstoð lögreglu vegna gruns um að hafa verið byrlað ólyfjan á skemmtistaðnum Húrra kvöldið sem Birna hvarf. Dyraverðir á Húrra hringdu á sjúkrabíl sem flutti hana á bráðamóttöku. Árið 2015 sagði Vilborg Kristín Þrastardóttir frá reynslu sinni í viðtali við DV, þar sem fimm menn höfðu veitt henni eftirför niður Túngötu í miðborg Reykjavíkur. Fjórir mannanna voru á hlaupum og sá fimmti á bíl. Hún sagði að einn mannanna hefði tekið í öxl sína en hún hafi náð að hlaupa á brott og að mennirnir hafi látið sig hverfa þegar annar vegfarandi kom aðvífandi. Hún sagðist þá ósátt við vinnubrögð lögreglu sem fylgdu málinu ekki eftir. Kynferðisbrotum fer þó fækkandi á milli ára. Árið 2016 voru 252 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þau voru 276 árið 2015. Tilkynningunum fækkaði um tæplega níu prósent. Af þeim voru 117 nauðganir árið 2016 miðað við 126 árið áður. Af þeim 126 nauðgunum sem voru tilkynntar árið 2015 voru 25 þeirra tilkynntar í miðborg Reykjavíkur. Flest tilkynnt kynferðisbrot í miðborginni voru árið 2013 eða 60 talsins, þar af 18 nauðganir. Tilkynntum kynferðisbrot fækkaði árið 2014 og voru þá 28 kynferðisbrot tilkynnt í miðborginni, þar af 15 nauðganir. Einungis liggur fyrir bráðabirgðatölfræði fyrir árið 2016 og því ekki hægt að sjá hversu hátt hlutfall kynferðisbrota var tilkynnt í miðborginni. Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta er lágt hlutfall kynferðisbrota framin á eða við skemmtistaði. Árið 2015 voru 7 nauðganir af þeim 192 sem komu á borð samtakanna sagðar hafa átt sér stað á eða við skemmtistað, eða 3,6 prósent. Þá voru tvær nauðgunartilraunir af 41, eða 4,9 prósent sögð framin á eða við skemmtistaði. Hæsta hlutfallið var af kynferðislegri áreitni eða 15 tilfelli af 152, eða 9,9 prósent.
„Ég fer ekkert sjálfviljug í einhver skuggasund“ Myrkrið hefur slæm áhrif á öryggistilfinningu kvenna í miðborg Reykjavíkur og þá efnisgerist ótti þeirra í karlmönnum. 30. október 2015 18:00