Erlent

Yfir­gáfu salinn þegar Netanjahú hóf ræðu sína

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölmargir fulltrúar á allsherjarþinginu fóru úr salnum þegar forsætisráðherra Ísraels hóf ræðuna sína.
Fjölmargir fulltrúar á allsherjarþinginu fóru úr salnum þegar forsætisráðherra Ísraels hóf ræðuna sína. AP

Fulltrúar fjölda ríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna stóðu upp og yfirgáfu sal allsherjarþingsins í New York þegar Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hóf ræðu sína um klukkan 13 að íslenskum tíma í dag.

Samkvæmt svörum frá utanríkisráðuneytinu hafi fulltrúi Íslands verið áfram í salnum, enda hafi það verið stefna íslenskra stjórnvalda að manna ávallt sæti Íslands meðan á umræðum í ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna standi.

„Hvorki utanríkisráðherra né fastafulltrúi Íslands voru hins vegar í salnum meðan forsætisráðherra Ísraels flutti ræðu sína,“ segir í svarinu. 

Segjast þurfa að „klára verkið“

Netanjahú hóf ræðu sína á því að segja frá öllum þeim óvinum sem Ísraelar hafi barist gegn. „Við höfum barið niður meirihluta hryðjuverkasamtakanna Hamas,“ sagði forsætisráðherrann. Sagði hann jafnframt að Ísraelar þurfi að „klára verkið á Gasa eins fljótt og auðið er.“

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í pontu. AP

Netanjahú minnti á að gíslar væru enn í haldi liðsmanna Hamas og að hann muni ávarpa þá í gegnum hátalara sem hafi verið komið fyrir víðs vegar á Gasasvæðinu. „Við erum ekki búin að gleyma ykkur,“ sagði forsætisráðherrann svo á herbresku. Forsætisráðherrann sagði ennfremur að Ísraelar hafi „tekið stjórn“ á farsímum fólks á Gasa til að varpa orðum forsætisráðherrans áfram til fólks á Gasa.

Hann hélt svo áfram og gagnrýndi alla þá sem hafi viðurkennt sjálfstætt ríki Palestínu, meðal annars Bretland, Frakkland, Kanada og Ástralíu.

AP

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðanna hafa um 65 þúsund manns látið lífið í stríðsrekstri Ísraela á Gasa og þar af 20 þúsund börn frá hryðjuverkaárás Hamas 7. október 2023..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×