Heimir Guðjónsson er hættur sem þjálfari FH í Pepsi-deild karla en hann hefur þjálfað liðið frá 2008 og gert FH fimm sinnum að Íslandsmeisturum.
FH-ingar birta í dag fréttatilkynningu á heimasíðu sinni þar sem sagt er frá þessum tíðindum en Heimir hefur verið í FH sem leikmaður, aðstoðarþjálfari eða þjálfari frá aldarmótum.
Heimir Guðjónsson kom í FH fyrir 2000-tímabilið og hjálpaði liðinu upp í úrvalsdeild á fyrsta tímabili. Hann lék síðan með FH í sex tímabil og var fyrirliði liðsins sem varð Íslandsmeistari 2004 og 2005. Heimir var síðan aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar í tvö tímabil áður en hann tók við liðinu.
Undir stjórn Heimis varð FH-liðið Íslandsmeistari tvö fyrstu tímabilin (2008 og 2009) og vann síðan bikarinn á því þriðja (2010). FH vann einnig Íslandsmeistaratitilinn 2012 og svo árin 2015 og 2016.
FH varð í 1. eða 2. sæti fyrstu níu tímabilin sem Heimir stýrði liðinu en endaði í 3. sæti í Pepsi-deildinni í sumar auk þess að tapa á móti ÍBV í bikarúrslitaleiknum.
Fréttatilkynning FH-inga:
„Knattspyrnudeild FH og Heimir Guðjónsson þjálfari FH hafa komist að samkomulagi um að Heimir láti nú af störfum hjá félaginu. Heimir hefur verið einn af máttarstólpunum í allri velgengi FH á síðustu árum og vill félagið fá að þakka honum fyrir hans störf síðustu 17 árin og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.“
Heimir hættur með FH-liðið
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið






Uppgjörið: Stjarnan - ÍBV 2-3 | Gott gengi Eyjamanna heldur áfram
Íslenski boltinn

Vilja úrslitaleik snemma vegna Eurovision
Enski boltinn


