Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta gerði markalaust jafntefli við það finnska í vináttulandsleik í Turku í dag.
Ísland og Tyrkland mætast aftur í Espoo klukkan 15:30 á mánudaginn. Þetta eru síðustu leikir Íslendinga fyrir undankeppni EM 2021 sem hefst í haust.
Besta færi Íslands kom strax á 6. mínútu. Elín Metta Jensen átti þá skot í slá eftir aukaspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur og skalla Glódísar Perlu Viggósdóttur.
Dagný Brynjarsdóttir fékk besta færi Íslands í seinni hálfleik en skaut yfir eftir fyrirgjöf Hlínar Eiríksdóttur.
Finnar voru annars meira með boltann og áttu nokkrar hættulegar skottilraunir en Sandra Sigurðardóttir var vel á verði í íslenska markinu.
Hin 18 ára Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks, lék sinn fyrsta landsleik í dag. Hún kom inn á fyrir Hallberu Gísladóttur á 59. mínútu.
Þetta var áttundi leikur Íslands og Finnlands. Finnar hafa unnið þrjá leiki, Íslendingar tvo og þrisvar sinnum hefur orðið jafntefli.
Byrjunarlið Íslands:
Markvörður: Sandra Sigurðardóttir
Hægri bakvörður: Ingibjörg Sigurðardóttir
Miðverðir: Glódís Perla Viggósdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir (81. Ásta Eir Árnadóttir)
Vinstri bakvörður: Hallbera Gísladóttir (59. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir)
Miðjumenn: Dagný Brynjarsdóttir (81. Alexandra Jóhannsdóttir), Sara Björk Gunnarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (81. Margrét Lára Viðarsdóttir)
Hægri kantmaður: Agla María Albertsdóttir
Vinstri kantmaður: Fanndís Friðriksdóttir (59. Hlín Eiríksdóttir)
Framherji: Elín Metta Jensen (89. Berglind Björg Þorvaldsdóttir)
