Kraftlyftingamaðurinn Júlían J. K. Jóhannsson er íþróttamaður ársins 2019 að mati Samtaka íþróttafréttamanna. Þetta er í fyrsta sinn sem Júlían hlýtur nafnbótina en hann lenti í 2. sæti í kjörinu í fyrra.
Valið var kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld. Þetta er í 64. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa íþróttamann ársins.
Júlían bætti eigið heimsmet í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á HM í kraftlyftingum í Dubai. Hann fékk bronsverðlaunin í samanlögðum árangri á sama móti.
Júlían sigraði í réttstöðulyftu á EM og hlaut silfurverðlaun í samanlögðu á mótinu. Hann er í þriðja sæti heimslistans í sínum þyngdarflokki.
Júlían, sem er 26 ára, er þriðji kraftlyftingamaðurinn sem er valinn íþróttamaður ársins. Skúli Óskarsson hlaut þessa nafnbót 1978 og 1980 og Jón Páll Sigmarsson 1981.
