Innlent

Hærri sjór og dýr í hættu

Norðurskautið hlýnar sem aldrei fyrr, nær tvisvar sinnum hraðar en aðrir hlutar jarðarinnar. Aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda á svo eftir að valda enn meiri hlýnun, að því er fram kemur í nýrri alþjóðlegri rannsókn um 300 vísindamanna sem staðið hefur síðustu fjögur ár. Rannsóknarverkefni ACIA (Arctic Climate Impact Assessment) var formlega sett af stað árið 2000 á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Point Barrow í Alaska. Áhrif hlýnunarinnar eru í skýrslu ACIA sögð verða mjög mikil. Til dæmis á sjávarborð eftir að hækka og eftir því sem íshellan yfir Norðurskautinu minnkar eykst hættan á að dýr á borð við ísbirni og sumar selategundir hreinlega deyi út. Þá geta göngur fiskistofna breyst, þorskstofninn í Grænlandshafi er sagður geta eflst og göngur fiska á borð við makríl og túnfisk inn á hafsvæðið við Ísland gætu aukist. Í dag hefst í Reykjavík alþjóðleg ráðstefna ACIA þar sem fjallað verður um loftslagsbreytingarnar kringum Norðurheimskautið og umhverfis- og félagslegar afleiðingar þeirra. Ráðstefnunni lýkur á föstudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×