Lífið

Gengi krónunnar er allt að drepa

Rétt áður en ekið er út úr Vík í Mýrdal til austurs er komið að reisulegu húsi sem hýsir prjónaverksmiðjuna Víkurprjón ásamt meðfylgjandi verslun. Þarna hefur Þórir Kjartansson látið prjónana eða öllu heldur prjónavélarnar ganga í aldarfjórðung og verið máttarstoð í atvinnulífi Víkurbúa.

Lífseigt fyrirtæki

"Ég held að þetta sé elsta prjónafyrirtæki landsins sem rekið hefur verið á sömu kennitölu frá upphafi," segir hann hógvær og gerir lítið úr þrautseigjunni. Þó má telja allt að því óðs manns æði að reyna að prjóna sokka í samkeppni við sívaxandi straum af ódýrum sokkaplöggum sem flæða yfir austan úr Asíu.

"Maður gerir ekki annað en að tapa markaðshlutdeild," segir Þórir fastmæltur og nefnir sem dæmi að um 1990 framleiddi hann 240 þúsund pör af sokkum en einungis um 90 þúsund í dag.

Hátt gengi er allt að drepa

Og það er gengi íslensku krónunnar sem gerir Þóri hvað erfiðast fyrir nú um stundir. "Hún er bókstaflega allt að drepa, ekki síst framleiðslu og ferðamannaþjónustu," segir hann og hristir höfuðið yfir þessum hamförum krónunnar.

Fjölbreyttari rekstur

En í takt við minnkandi sokkasölu hefur Þórir skotið fleiri fótum undir reksturinn; ullarvinnu og verslun þar sem hann selur framleiðsluna og minjagripi aukinheldur.

"Fyrirtækið lifir að stærstum hluta orðið af túristum sem koma hingað á sumrin," segir hann með hægð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×