Innlent

Þriggja daga spáin var vitlaus

Þriggja daga veðurspá fyrir Norðurlöndin, áður en óveðrið mikla skall á fyrir rúmri viku, var arfavitlaus. Veðurskilyrðin suðvestur af Íslandi voru önnur en komu fram á reiknilíkani Evrópsku veðurstofunnar, sem staðsett er í Englandi. "Villan er á okkar slóðum," segir Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, sem vinnur að rannsókn á því hvað klikkaði, ásamt þremur öðrum vísindamönnum. Hann segir mælingar meira og minna sjálfvirkar. Upplýsingar fáist gegnum gervihnetti, háloftabelgi og flugvélar. "Líklegasta skýringin er að engin flugvél hafi verið á ferðinni þarna og gervitunglaathuganir gefa ekki nákvæmar upplýsingar um þversnið andrúmsloftsins. Það er líka inni í myndinni að líkönin hafi reiknað áhrif Grænlands vitlaust." Haraldur segir niðurstöður úr rannsókninni eiga að liggja fyrir í apríl, áður en ráðstefna Evrópska jarðvísindafélagsins verði haldin í Vínarborg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×