Hákon Eydal hyggst áfrýja dómi

Hákon Eydal, banamaður Sri Rahmawati, var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 16 ára fangelsi. Eins var honum gert að greiða þremur börnum Sri nærri 22 milljónir króna í bætur. Hákon lýsti því yfir við dómsuppkvaðningu að hann ætlaði að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Hákon varð Sri að bana á heimili sínu í Stórholti í byrjun júlí í fyrra en hún var fyrrverandi sambýliskona hans og barnsmóðir. Sri lést sökum kyrkingar en hafði einnig alvarlega höfuðáverka og hefur Hákon játað að vera valdur að hvoru tveggja.