Lífið

Hitalögn um hlað og stétt

"Við nánast öll hús sem byggð eru í dag er sett snjóbræðsla í stéttar og þeir sem eru að gera upp gamlar innkeyrslur setja undantekningalítið svona kerfi undir þær," segir Gísli Erlendsson í Bykó. Hann segir kostnaðinn við slík kerfi ótrúlega lítinn og eingöngu felast í pípunum sem lagðar eru undir hellurnar og lítilsháttar vinnu við þær. "Langflestir nota affallið af ofnakerfinu og það er látið renna gegnum snjóbræðslukerfið á leið sinni út í skólplagnirnar. Þá er fólk að gjörnýta heita vatnið sem það kaupir hvort sem er. Í mörgum tilfellum dugar það við einbýlishús þannig að aukakostnaður við að kynda kerfið er enginn." Gísli segir tiltölulega einfalt að leggja svona kerfi. "Það er tengt við mælagrindina í húsinu. Þaðan tekur vatnið krók útá hlað og fer svo aftur til baka í rörið sem liggur útúr húsinu í skolpkerfið." Jónas Sigurðsson í Húsasmiðjunni tekur undir það að lögn snjóbræðslukerfis sé ekki flókin en segir þó æskilegast að fá í það pípulagningamann. "Fólk hefur verið að leggja svona kerfi sjálft en pípulagningamaður þarf að tengja það og verður þá að geta tekið ábyrgð á því. Ef eitt brot kemur í lögnina þá stíflast hún og píparinn lendir í vanda." Jónas segir plaströr notuð í lögnina og algengasta sverleikann 20 mm eða 25. En kerfið þurfi að vera 35-40 gráður til að bræða eitthvað að gagni. Því séu oft settir svokallaðir innspýtingarlokar sem blandi hitastigið inná það. "Lokinn skynjar hitastigið á vatninu sem kemur til baka frá planinu. Oft er hann stilltur á 10 gráður og ef hitinn fer neðar sendir lokinn boð inn í hausinn sem er á innrennslinu og opnar heitavatnskranann eftir þörfum," útskýrir hann. Sverleika röranna segir hann oftast segja til um sentimetrana sem eiga að vera á milli þeirra. 20 mm rör þýðir 20 cm á milli. "Fyrst er lögð stór slaufa og svo minni slaufur til baka inní þá stóru til að dreifa hitanum sem mest." Þá vitum við það.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×