
Innlent
Leita Þjóðverja á Hornströndum

Björgunarsveitir við Ísafjarðardjúp eru nú á leið á Hornstrandir til að leita að 23 ára gömlum Þjóðverja. Þyrla Landhelgisgæslunnar er einnig á leiðinni vestur með leitarhunda að sunnan. Þjóðverjinn varð viðskila við gönguhóp sinn á Hornströndum í gær. Talið er að hópurinn hafi verið á leið frá Hælavík yfir í Hornvík þegar maðurinn týndist, en mikil þoka var á svæðinu. Er óttast um afdrif mannsins þar sem ferðaveður er slæmt, kalt og mikil rigning. Björgunarsveitir við Ísafjarðardjúp eru á leið á staðinn en ferðalagið tekur um þrjá og hálfan tíma. Veðrið gerir leitina einnig erfiða, en til að mynda er ekki hægt að leita á sjó vegna þess. Að sögn Önundar Björnssonar, yfirlögregluþjóns á Ísafirði, lendir þyrlan rúmlega tólf á Ísafirði og mun þá ferja fólk, leitarhunda og farangur á Hornstrandir.