Þetta er ekki búið enn

Spænski ökuþórinn Fernando Alonso hjá Renault segist alls ekki vera farinn að fagna meistaratitli ökumanna í Formúlu eitt, þó hann hafi 27 stiga forystu á næsta mann þegar aðeins 40 stig eru eftir í pottinum. "Engin keppni er eins, en ef vandamál kemur uppá hjá okkur, er ég ekki eins fljótur að bregðast við því eins og McLaren liðið. Ef við höldum samt áfram á sömu braut og við höfum verið undanfarið, hef ég enga trú á öðru en að við náum að vinna," sagði hinn ungi Spánverji, sem hefur verið einstaklega sannfærandi í ár.