
Sport
Meistaradeildin í dag

Nú klukkan 18:30 verður flautað til leiks í Meistaradeild Evrópu á Sýn og fyrsti leikurinn í beinni útsendingu verður viðureign Real Betis og Liverpool í G-riðli. Síðar um kvöldið, eða klukkan 21:20 fer í loftið leikur Chelsea og Anderlecht á Stamford Bridge. Nokkrir athyglisverðir leikir verða á dagskrá í keppninni í kvöld og þar á meðal mun belgíska liðið Anderlecht hafa að miklu að keppa í leik sínum við Chelsea, því þar mun liðið reyna að afstýra því að setja met í deildinni með áttunda tapinu í röð í Meistaradeild. AC Milan leikur fyrsta leik sinn í keppninni við Fenerbahce frá Tyrklandi í Mílanó, en grannar þeirra í Inter mæta smáliðinu Artmedia frá Slóvakíu. Real Madrid mætir frönsku meisturunum í Lyon, en spænska liðið er án lykilmanna eins og Ronaldo og Zidane. Þá eigast einnig við lið PSV Eindhoven og Schalke og Rangers frá Skotlandi taka á móti fyrrum Evrópumeisturum Porto. Eins er rétt að minna á þáttinn Meistaradeildin með Guðna Bergs á Sýn nú klukkan 18:00, þar sem Guðni fær til sín góða gesti og spáir í spilin fyrir leiki kvöldsins.