Sport

Meistarakeppnin í dag

"Það er mikil tilhlökkun í mannskapnum," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, en lið hans mætir Haukum í Meistarakeppni HSÍ í dag. Hafnarfjarðarfélaginu er spáð mikilli velgengni enn eitt árið í handboltanum en forráðamenn handboltafélaganna á Íslandi spá Haukum Íslandsmeistaratitli í bæði karla- og kvennaflokki. "Það er eðlilegt að Haukum sé spáð velgengni. Það eru margir sterkir leikmenn á mála hjá félaginu og svo eru mörg önnur lið að ganga í gegnum mikið breytingaskeið, þannig að spáin kemur mér ekkert á óvart. En ég á von á því að þetta verði hörkuleikur." Lið ÍR mætir Haukum í karlaflokki en miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi ÍR síðan á síðustu leiktíð auk þess sem Júlíus Jónasson og Finnbogi Sigurbjörnsson hafa skipt um hlutverk, en Júlíus var aðalþjálfari liðsins en er nú orðinn aðstoðarmaður Finnboga. "Við munum fara í þennan leik með það að markmiði að vinna, eins og við gerum alltaf. Það eru margir ungir og efnilegir strákar í hópnum núna sem eru tilbúnir til þess að leggja mikið á sig. Það er okkar markmið að vera í efri hluta deildarinnar," sagði Júlíus. Finnbogi er viss um að leikmenn ÍR verði tilbúnir í slaginn í dag. "Það er mikil tilhlökkun hjá leikmönnum. Spennan er alltaf mikil á þessum árstíma og það verður spennandi að sjá hvernig vertíðin fer af stað. Liðsheildin verður okkar aðalsmerki í vetur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×