Rökræðan sem gleymdist 8. október 2006 06:00 Sú var tíð að fremur letilegt yfirbragð var á Alþingi fyrstu þingdaga á haustin. Þar á hafa orðið góð og eftirtektarverð umskipti. Umræður á löggjafarsamkomunni hefjast nú af talsverðum þrótti og nokkurri snerpu. Þegar vika er liðin af síðasta þingi kjörtímabilsins hafa umræður farið fram um stefnuræðu forsætisráðherra og búið er að ljúka fyrstu umræðu fjárlaga. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa aukinheldur efnt til umræðna utan dagskrár um þau efni sem þeir telja allra brýnast að varpa pólitísku kastljósi á. Eðlilega hafa umræður um efnahags- og fjármál verið tímafrekar þessa daga. Og ekki kemur á óvart að tekist hafi verið á um varnar- og öryggismál. Hitt vekur samt mesta athygli að mikilvægasta pólitíska viðfangsefni samtímans skuli hafa verið veitt að mestu framhjá Alþingi í þessari að öðru leyti ágætu þingbyrjun. Það er ekki aðeins að skólamálin og vísindastarfsemin ráði mestu um efnahagslega framtíð þjóðarinnar. Nútíma skólastarf hefur í ríkum mæli tekið við af heimilunum um mótun lífsgilda og lífshátta. Hvernig í ósköpunum getur það gerst að rökræða um þessi efni skuli ekki vera uppistaðan í umræðuvef þingmanna þegar línur eru lagðar um þau efni sem mestu máli þykja skipta? Að vísu er það svo að forsætisráðherra reifaði þessi mál með heldur ítarlegri hætti en venja stendur til í stefnuræðum. Það var helsta undantekningin frá þögninni. Sannleikurinn er sá að margvíslegar og góðar breytingar hafa orðið síðustu ár á þessu sviði. Mikilvægi menntamálanna er þannig vaxið að forsætisráðherrar eiga í raun réttri að láta þau meir til sín taka en önnur viðfangsefni. Vonandi má líta á stefnuræðuna sem smáan vísi í þá veru. Ríkisstjórnin hefur enga ástæðu til feimni um þá hluti. Fjárframlög til menntamála hafa stóraukist. Háskólanemendum hefur fjölgað ríkulega. En það vantaði skýrari skilaboð um framtíðina. Og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa trúlega talið að meir sviði undan gagnrýni á öðrum sviðum en þessu. Um þeirra framtíðarsýn var líka þögn. Staðreynd er að aukin fjárframlög hafa enn ekki skilað meiri og betri námsárangri. Hvernig á að knýja á um að svo verði? Hvaða tímasettu áætlanir og hvers kyns gæðaeftirlit á að gera þar að lútandi? Er ásættanlegt að aðeins einn framhaldsskóli hafi vottað gæðamat? Hvenær á að hrinda tillögum um nýtt framhaldsskólaskipulag í framkvæmd? Á bara að vera unnt að umbuna kennurum í launum eftir starfsaldri en ekki hæfni? Hvaða hug ber pólitíkin til sjálfstæðra skóla? Er það markmið að reka meirihluta af tíu minnstu háskólum í heimi? Eða er vilji til pólitískrar forystu um að lyfta Háskóla Íslands upp í fremstu röð? Efnahagsleg framtíð þjóðarinnar liggur meðal annars í spurningum af þessu tagi. Það þarf að velja og hafna og gera upp á milli hagsmuna á þessu sviði. Þar um þarf pólitíska rökræðu. Hún gleymdist. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun 16 ára aldurstakmark á samfélagsmiðlum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Börn, ungmenni og geðheilsa Tómas Þór Þórðarson,Gunnar Örn Jóhannsson Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Afsláttur af mannréttindum Heiða Ingimarsdóttir Skoðun Áhyggjulaust ævikvöld Gísli Rafn Ólafsson Skoðun Útrýmum kjaragliðnun Jónína Björk Óskarsdóttir Skoðun Betri er auðmjúkur syndari en drambsamur dýrlingur Stefanía Arnardóttir Skoðun
Sú var tíð að fremur letilegt yfirbragð var á Alþingi fyrstu þingdaga á haustin. Þar á hafa orðið góð og eftirtektarverð umskipti. Umræður á löggjafarsamkomunni hefjast nú af talsverðum þrótti og nokkurri snerpu. Þegar vika er liðin af síðasta þingi kjörtímabilsins hafa umræður farið fram um stefnuræðu forsætisráðherra og búið er að ljúka fyrstu umræðu fjárlaga. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa aukinheldur efnt til umræðna utan dagskrár um þau efni sem þeir telja allra brýnast að varpa pólitísku kastljósi á. Eðlilega hafa umræður um efnahags- og fjármál verið tímafrekar þessa daga. Og ekki kemur á óvart að tekist hafi verið á um varnar- og öryggismál. Hitt vekur samt mesta athygli að mikilvægasta pólitíska viðfangsefni samtímans skuli hafa verið veitt að mestu framhjá Alþingi í þessari að öðru leyti ágætu þingbyrjun. Það er ekki aðeins að skólamálin og vísindastarfsemin ráði mestu um efnahagslega framtíð þjóðarinnar. Nútíma skólastarf hefur í ríkum mæli tekið við af heimilunum um mótun lífsgilda og lífshátta. Hvernig í ósköpunum getur það gerst að rökræða um þessi efni skuli ekki vera uppistaðan í umræðuvef þingmanna þegar línur eru lagðar um þau efni sem mestu máli þykja skipta? Að vísu er það svo að forsætisráðherra reifaði þessi mál með heldur ítarlegri hætti en venja stendur til í stefnuræðum. Það var helsta undantekningin frá þögninni. Sannleikurinn er sá að margvíslegar og góðar breytingar hafa orðið síðustu ár á þessu sviði. Mikilvægi menntamálanna er þannig vaxið að forsætisráðherrar eiga í raun réttri að láta þau meir til sín taka en önnur viðfangsefni. Vonandi má líta á stefnuræðuna sem smáan vísi í þá veru. Ríkisstjórnin hefur enga ástæðu til feimni um þá hluti. Fjárframlög til menntamála hafa stóraukist. Háskólanemendum hefur fjölgað ríkulega. En það vantaði skýrari skilaboð um framtíðina. Og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa trúlega talið að meir sviði undan gagnrýni á öðrum sviðum en þessu. Um þeirra framtíðarsýn var líka þögn. Staðreynd er að aukin fjárframlög hafa enn ekki skilað meiri og betri námsárangri. Hvernig á að knýja á um að svo verði? Hvaða tímasettu áætlanir og hvers kyns gæðaeftirlit á að gera þar að lútandi? Er ásættanlegt að aðeins einn framhaldsskóli hafi vottað gæðamat? Hvenær á að hrinda tillögum um nýtt framhaldsskólaskipulag í framkvæmd? Á bara að vera unnt að umbuna kennurum í launum eftir starfsaldri en ekki hæfni? Hvaða hug ber pólitíkin til sjálfstæðra skóla? Er það markmið að reka meirihluta af tíu minnstu háskólum í heimi? Eða er vilji til pólitískrar forystu um að lyfta Háskóla Íslands upp í fremstu röð? Efnahagsleg framtíð þjóðarinnar liggur meðal annars í spurningum af þessu tagi. Það þarf að velja og hafna og gera upp á milli hagsmuna á þessu sviði. Þar um þarf pólitíska rökræðu. Hún gleymdist.