Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir og Eyrún Fríða Árnadóttir skrifa

Þann 24. janúar næstkomandi fer fram prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna komandi borgarstjórnarkosninga þann 16. maí 2026. Alls bjóða 16 einstaklingar sig fram í efstu 6 sæti listans og því ærin ástæða til þess að kynna sér frambjóðendur, kjósa og hafa þannig áhrif á lista Samfylkingarinnar í borginni til næstu fjögurra ára.

Að þessu tilefni viljum við draga athyglina sérstaklega að ungum frambjóðendum sem stíga sitt fyrsta skref í pólitík því iðulega er athyglinni beint að oddvita sætum.

564 manns kusu í forprófkjöri Ungs jafnaðarfólks í Reykjavík og það er því ljóst á áhugi ungliða á borgarmálum er mikill. En markmið ungliðaprófkjörsins var að vekja aukna athygli á ungum frambjóðendum og fylkja ungu fólki saman til að styðja við sína frambjóðendur. Sigurvegarar prófkjörsins voru þau Bjarnveig Birta Bjarnadóttir og Stein Olav Romslo. Þau hafa því skýrt umboð frá ungliðum Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Eflaust þykir mörgum undarlegt að draga þurfi athygli sérstaklega að ungu fólki í prófkjöri í Reykjavík, en ungt fólk þarf líka að eiga sína fulltrúa í borgarstjórn. Sveitarstjórnir þurfa að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins eins vel og kostur er. Ólík reynsla og bakgrunnur er nauðsynlegur inn í ákvarðanatöku sveitarfélaga sem þarf að setja hagsmuni allra íbúa í fyrsta sæti.

Báðar þekkjum við það að starfa í sveitarstjórnum á sama tíma og við tilheyrum ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar. Við þekkjum því vel hversu miklu máli það skiptir að hafa fjölbreyttar raddir í bæjarstjórn sem geta skilið hvaða þjónustu sveitarfélaga þarf að bæta.

Ungt fólk er oft að takast á við aðrar áskoranir en þau okkar sem eldri eru. Ungt fólk er oft að sinna námi, feta sín fyrstu skref í atvinnulífinu, gera heiðarlega tilraun til að komast inn á húsnæðismarkað og/eða er að eignast börn. Mörg okkar gera þetta allt á sama tíma. Því eru áskoranirnar sem tengjast daglegu lífi oft aðrar en hjá öðrum aldurshópum. Það er nauðsynlegt að ákvarðanirnar séu teknar af fólki sem þekkir þessar áskoranir og við vitum að það gera bæði Bjarnveig Birta og Stein. Bjarnveig Birta er þriggja barna móðir og rekstrarstjóri búsett í Grafarvogi og Stein er kennari í Hagaskóla í Vesturbænum með konu og ungt barn sem bíður eftir að komast inn á leikskóla.

Að því sögðu þá er þetta jafnframt áskorun til allra flokksfélaga Samfylkingarinnar til þess að velja sér ungt fólk til athafna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 16. maí næstkomandi.

Höfundar eru Hildur Rós Guðbjargardóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, og Eyrún Fríða Árnadóttir, bæjarfulltrúi sveitarfélagsins Hornafjarðar.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×