Skoðun

Skattlagning ellilífeyris

Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, núverandi borgarstjóri í Reykjavík, var í kosningabáttunni lofaði hann því margoft að ef hann kæmist að þá skyldu málefni eldri borgara vera í algjörum forgangi. Ég er eldri borgari og satt að segja leist mér ekki á svona kosningaloforð úr þessari áttinni, enda reyndist ótti minn réttur. Nú þegar er búið að hækka dvalarkostnað minn um 10.000 kr. og mig munar um það.

Mér finnst einnig skatturinn fara virkilega illa með okkur ellilífeyrisþega. Sem dæmi um mig get ég nefnt þetta: Ég bjó í Svíþjóð í fjórtán ár. Fór út til Svíþjóðar árið 1979 eftir skilnað. Ég er sjómaður og var á sænskum skipum þennan tíma. Ég gifti mig aftur og var alfarið búandi í Svíþjóð þennan tíma. Ég fékk ellilífeyri frá Svíum fyrir þennan tíma.

Þegar ég kem aftur til Íslands (1994) og geri mína skattskýrslu þá vill skatturinn alltaf skattleggja lífeyrisgreiðslur frá Svíþjóð með hinum. Bókari, sem gerði skattskýrsluna fyrir mig, fletti upp í íslenskum lögum og fann þar grein sem sagði að bannað væri að tvískatta innan Norðurlandanna. Við sendum kæru til ríkisskattstjóra en svarið var: Jú, það er rétt að það er bannað að tvískatta innan Norðurlandanna. En það var allt í lagi að leggja á (þá sænsku) ef það heitir bara eitthvað annað en skattur, til dæmis tekjutenging og svo framvegis.

Síðan ég kom frá Svíþjóð hef ég skipt þessum sænsku peningum yfir í íslenska þannig að eitthvað fær nú íslenska ríkið í sinn hlut af þessum peningum frá Svíþjóð. Samanlagt finnst mér þetta vera ærinn skattur á ellilífeyrisþega. Ég borga 36,72% skatt af tekjum (ætti að vera 10% fyrir ellilífeyrisþega).

Nú er alltaf verið að bera sig saman við Norðurlandaþjóðirnar. Ég er hundrað prósent viss um að Ísland slær hinum Norðurlandaþjóðunum rækilega við með fáum háum sköttum á ellilífeyrisþega. Þetta er tví- og þrísköttun. Í fyrsta lagi skattleggja Svíar (hóflega þó), síðan Íslendingar og síðan peningarnir frá Svíþjóð, sem fara út í þjóðfélagið.

 




Skoðun

Sjá meira


×