Ökuþórinn Jenson Button hjá Honda í Formúlu 1, heimtar að liðið komi bíl sínum í keppnishæft ástand fyrir næstu keppni sem er í Malasíu um helgina, en bilun varð til þess að hann varð af sæti á verðlaunapalli um síðustu helgi í Barein.
"Við verðum einfaldlega að koma bílunum í almennilegt lag ef við ætlum okkur að vera með í baráttunni um titilinn. Svona smábilanir kosta okkur gríðarlega og það þýðir ekkert að taka þeim létt ef mönnum er alvara með að ógna toppliðunum. Það er þó bót í máli fyrir næstu keppni að við vitum að við erum með mjög hraðskreiðan bíl og það gefur okkur byr undir báða vængi fyrir næstu keppni," sagði Button.