Sport

Glæsimark Grétars tryggði KR sigur

Grétar Hjartarson skoraði sigurmark KR í 1-2 útisigri Vesturbæjarliðsins á ÍA í Landsbankadeild karla í knattspyrnu.

Guðmundur Reynir Gunnarsson kom KR yfir á 21. mínútu á Skipaskaga eftir vandaðan undirbúning Rógva Jackobsen. Heimamenn í ÍA jöfnuðu metin úr vítaspyrnu sem Arnar Gunnlaugsson skoraði úr sjö mínútum síðar en dómur þeirrar vítaspyrnu þótti afar umdeildur. Grétar Ólafur Hjartarson skoraði svo sigurmark KR beint úr aukaspyrnu á 51. mínútu með stórglæsilegri spyrnu fyrir utan vítateig.

Garðar Örn Hinriksson dómari leiksins átti eftir að stækka hlutverk sitt síðar í leiknum því á 73. mínútu rak hann Grétar Ólaf KR-ing af velli en ekki er þó vitað fyrir hvað. Bjarki Guðmundsson markvörður ÍA fór sömu leið með rauða spjaldið skömmu fyrir leikslok vegna olnbogaskots.

Þetta voru fyrstu stig KR-inga í deildinni en Skagamenn hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×