Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Samkeppniseftirlitið af kröfum Sjóvás - Almennra vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í tengslum við ólöglegt samráð stóru tryggingarfélaganna. Tuttugu og sjö milljóna króna sekt Sjóvás - Almennra stendur því óhreyfð.
Forsaga málsins er sú að í júlí 2002 leitaði aðili sem starfar við bifreiðaréttingar og sprautun til Samkeppnisstofnunar vegna aðgerða vátryggingafélaganna í tengslum við innleiðingu svokallaðs Cabas-tjónamatskerfis. Taldi aðilinn að vátryggingafélögin hefðu haft samráð um greiðslur fyrir hverra unna einingu í kerfinu.
Samkeppnisstofnun tók málið til rannsóknar og komst að þeirri niðurstöðu að VÍS, Tryggingamiðstöðin og Sjóvá hefðu haft með sér samráð í málinu og gaf félögunum kost á að tjá sig munnlega um efni málsins. Áður en til þess kom óskaði VÍS eftir viðræðum við Samkeppnisstofnun um að ljúka málinu með sátt og greiddi félagið fimmtán milljónir króna í stjórnvaldssekt. Sama gerði Tryggingamiðstöðin og greiddi átján og hálfa milljón í sekt vegna samráðsins.
Sjóvá taldi sig hins vegar ekki hafa brotið samkeppnislög. Því hélt málið áfram og var Sjóvá dæmt til greiðslu 27 milljóna króna í sekt. Þá ákvörðun kærði Sjóvá til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti úrskurð samkeppnisráðs.
Í kjölfar úrskurðarins höfðaði Sjóvá-Almennar mál gegn Samkeppniseftirlitinu til þess að fá úrskurðinum hnekkt. Þeirri kröfu hafnaði héraðsdómur nú í vikunni og því stendur sektargreiðslan. Voru Sjóvá-Almennar auk þess dæmdar til að greiða málskostnað.