Lífið

Ævintýraveröld ófétanna

Ævintýraveröld ófétanna á Jónsmessuhátíð Listasumars á Akureyri

Agnarlitlu ófétin eiga heima í blómum og fljúga á fiðrildum. Í heimi þeirra er hið smáa risavaxið og allt er fullt af undrum og óvæntum uppákomum. Stilkar blómanna eru eins og trjábolir og grasþykknið er eins og þéttur frumskógur. Norður á Akureyri er svokallaður Kjarnaskógur sem breytast mun í Ófétaskóg á Jónsmessuhátíð 23. júní næstkomandi.

Þá verður Listasumar á Akureyri 2006 sett með pompi og prakt og fjölbreyttir listviðburðir og karnívalsstemming verða í skóginum. Sérstakt þema hátíðarinnar eru ófétin úr ævintýraveröld sem Rúna K. Tetzschner hefur skapað en þau munu skjóta upp kolli í ýmsum gervum og listformum. Ófétin munu syngja, dansa, skemmta sér og síðast en ekki síst: Sýna krækiklærnar!

Sá efniviður sem Rúna hefur lagt til með sköpun ævintýraheims ófétanna er kjörinn til að fá börn til að skapa eitthvað sjálf og dagana 20. til 23. júní stendur Listasumar á Akureyri fyrir ófétalistasmiðjum fyrir börn á aldrinum 4rra til 12 ára. Í listasmiðjunum mun bæði fara fram myndlistarsköpun og tónlistarsköpun undir stjórn Rúnu, Óskar Óskarsdóttur og Núma Björnssonar og koma börnin fram með listaverk sín á Jónsmessunótt í Kjarnaskógi 23. júní. Daginn eftir eða 24. júní kl. 15:00 opnar sýning í Deiglunni á frummyndum Rúnu af ævintýraheimi ófétanna og stendur hún til 8. júní.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×