Heimsmeistarinn Fernando Alonso hjá Renault segir að Michael Schumacher verði með 100% einbeitingu í Ítalíukappakstrinum á Monza á sunnudaginn, þó tilkynnt verði eftir keppnina hverjir ökumenn Ferrari verði á næsta keppnistímabili - en þá kemur formlega í ljós hvort hinn sigursæli Þjóðverji leggur stýrið á hilluna eða heldur áfram að keppa á næsta tímabili.
"Michael mun verða með alla sína einbeitingu í keppninni, því hann er löngu búinn að gera það upp við sig hvort hann ætlar að halda áfram að keppa eða setjast í helgan stein," sagði Spánverjinn ungi.
"Hann mun tilkynna ákvörðun sína á sunnudaginn og það mun ekki breyta einu eða neinu um frammistöðu hans um helgina eða það sem eftir lifir tímabils. Við viljum vinna - þeir vilja vinna - ákvörðun hans breytir engu," sagði Alonso, en hætt er við því að sjálfur kappaksturinn gæti á tíðum fallið í skuggann af ákvörðun Schumacher.