Formúla 1

Portúgal í stað Hollands í For­múlu 1

Sindri Sverrisson skrifar
Max Verstappen keppir á heimavelli í hollenska kappakstrinum í síðasta sinn, í bili að minnsta kosti, á næsta ári.
Max Verstappen keppir á heimavelli í hollenska kappakstrinum í síðasta sinn, í bili að minnsta kosti, á næsta ári. Getty/Eric Alonso

Á næsta ári verður í síðasta inn, að minnsta kosti í bili, keppt í Hollandskappakstrinum í Formúlu 1 því ákveðið hefur verið að taka braut í Portúgal inn í staðinn.

Keppt verður í Portúgal árin 2027 og 2028, á Algarve International Circuit í nágrenni bæjarins Portimao.

Þar var einnig keppt í kórónuveirufaraldrinum, árin 2020 og 2021, og vann Lewis Hamilton í bæði skiptin, þá sem ökuþór fyrir Mercedes. Seinni sigurinn dugði til að slá met Michael Schumacher sem vann 91 kappakstur á sínum ferli.

Um er að ræða 4,65 kílómetra, hæðótta braut sem er í miklum metum vegna þess hve snúið er að keppa á henni, samkvæmt grein BBC.

„Ég er himinlifandi að sjá Portimao snúa aftur á dagatal Formúlu 1 og að íþróttin haldi áfram að kveikja ástríðu okkar ótrúlegu portúgölsku aðdáenda,“ sagði Stefano Domenicali, stjórnarformaður og forstjóri Formúlu 1.

„Brautin býður upp á spennu frá fyrstu beygju að köflótta flagginu og orkan fær áhorfendur til að standa á öndinni. Áhuginn og eftirspurnin eftir að halda Formúlu 1 kappakstur hefur aldrei verið meiri,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×