Evrópumeistarar Barcelona hafa orðið fyrir miklu áfalli en skæðasti framherji liðsins, Kamerúninn Samuel Eto´o, meiddist á hné í leiknum gegn Werder Bremen í Meistaradeildinni í kvöld og segist læknir liðsins halda að hann verði frá keppni í tvo til þrjá mánuði fyrir vikið.
Þetta eru slæm tíðindi fyrir Evrópumeistarana því Eto´o er að flestra mati talinn einn besti framherji heimsins og hefur verið mjög iðinn við kolann undanfarin ár. Frank Rijkaard þjálfari vildi lítið tjá sig um meiðsli framherjans í kvöld en sagði lækna liðsins meta ástand hans betur á morgun.
Þó þetta sé vissulega áfall fyrir Barcelona, gætu þessi tíðindi þó reynst blessun fyrir landsliðsfyrirliðann Eið Smára Guðjohnsen, sem nú fær væntanlega meira að spreyta sig með liðinu í kjölfarið eftir að hafa mestmegnis verið á varamannabekknum í upphafi leiktíðar.