Talsmaður spænska stórliðsins Atletico Madrid segir ekkert til í þeim orðrómi að félagið ætli að bjóða í enska kantmanninn Shaun Wright-Phillips þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar, en félagið er nú að leita að manni í stað þeirra Maxi Rodriguez og Martin Petrov sem báðir verða lengi frá vegna meiðsla.
"Við erum með nokkra menn í sigtinu en við ætlum ekkert að tjá okkur um það í fjölmiðlum," sagði yfirmaður íþróttamála hjá spænska félaginu í samtali við Sky sjónvarpsstöðina. "Við verðum að vísu líklega að finna mann eða menn í stað Maxi og Petrov, en allar slíkar ákvarðanir verða í höndum knattspyrnustjórans og ef hann hefur augastað á ákveðnum leikmönnum - koma sterkir leikmenn til greina hvar sem er í heiminum."