Sjúklingum á fjórum sjúkrahúsum í Bretlandi hefur verið boðið að fara í HIV próf þar sem komið hefur í ljós að starfsmaður sem annaðist þá er HIV smitaður.
Fréttavefur SKY greinir frá þessu. Talið er að í kringum eitt þúsund og eitt hundrað sjúklingar hafi hlotið aðhlynningu á sjúkrahúsunum sem um ræðir. Taldar eru litlar líkur á að sjúklingarnir hafi komist í snertingu við vírusinn. Smit starfsmannsins uppgötvaðist við reglubundið eftirlit en hann reyndist einnig smitaður af lifrarbólgu B.