Tugþúsundir Palestínumanna fylgdu fórnarlömbum árásar Ísraela í Beit Hanoun í fyrrinótt til grafar í morgun. Átján manns létust í árásinni, þar á meðal fjölmargar konur og börn. Yfir höfðum syrgjenda sveimuðu ómannaðar ísraelskar eftirlitsflugvélar.
Átjánmenningarnir voru allir úr sömu fjölskyldunni. Þeir voru bornir til grafar í kirkjugarði í Beit Hanoun sem enn er verið að byggja upp en hann var opnaður í skyndi þar sem ekki var nægt pláss í öðrum kirkjugörðum til þess að taka á móti öllum fórnarlömbunum.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna árásanna, en þetta er mesta mannfall í röðum palestínskra borgara í árás Ísraelshers í sex ár.