Arsenal verður án liðskrafta varnarmannsins William Gallas næstu vikurnar eftir að leikmaðurinn meiddist á æfingu á mánudag. Þetta er mikið áfall fyrir Arsenal en Gallas hefur spilað mjög vel síðustu vikur.
Arsenal tekur á móti Hamburg í Meistaradeildinni annað kvöld og má telja líklegt að Philippe Senderos eða Johan Djourou taki sæti hans í miðri vörninni.
"Gallas meiddist þegar nokkrar mínútur voru eftir af æfingunni. Hann er tognaður á læri og verður frá í nokkrar vikur. Þetta er mikið áfall fyrir okkur því hann kemur með mikinn stöðugleika í varnarleik okkar. Hins vegar valda meiðslin því að það opnast tækifæri fyrir ungan leikmann til að sanna sig," sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, við fjölmiðla í dag.