Borgarstjórinn í New York lýsti í gær yfir stuðningi við lögreglustjóra borgarinnar. Háværar kröfur hafa verið uppi um að lögreglustjórinn láti af embætti, eftir að óvopnaður blökkumaður var skotinn til bana, fyrir utan næturklúbb í borginni um helgina.
Mikil ólga hefur verið meðal þeldökkra í Bandaríkjunum vegna dauða mannsins. Maðurinn var að koma út af klúbbnum, í fylgd tveggja félaga sinna, þegar þeir óku óvart utan í ómerktan lögreglubíl og var skotum þá látið rigna yfir þá. Alls skaut lögreglan fimmtíu skotum en enginn mannanna var vopnaður. Maðurinn var tuttugu og þriggja ára og ætlaði að ganga í það heilaga síðar sama dag.