Svona ætti að vera … Guðmundur Andri Thorsson skrifar 20. ágúst 2007 06:45 Við ákváðum að skilja bílinn eftir í Hlíðunum og labba niður í bæ - taka svo strætó til baka. Við vorum hluti af innrásarhernum; fótgönguliðarnir úr nágrenni borgarinnar; komin í heimsókn til Reykjavíkur, og brýndum fyrir sjálfum okkur að fara nú ekki að spræna á neinar útihurðir … Menningarnótt er ánægjulegt fyrirbæri og minnir okkur á að það er bara ein leið „niður í bæ". Höfuðborgarsvæðið á sér bara eina sögulega og sálarlega og raunverulega miðju, sem er gamli miðbærinn okkar. Og gildir þá einu hversu oft fólki er stefnt í Smáralindina til að hylla íþróttastjörnur eða skoða nýjustu módelin af jarðýtum - því hvernig er hægt að láta sér líða raunverulega vel eða finna til samkenndar við annað fólk inni í húsi sem er í laginu eins og getnaðarlimur? Menningarnóttin er góð fyrir sjálfsmynd Reykjavíkur. Þennan dag fótósjoppar borgin sig: hún birtist þennan dag sjálfri sér sem iðandi og sólríkur vettvangur fyrir hvers kyns skapandi starfsemi, deigla, heimsborg þar sem fólk er á torgum að spígspora og skapa og selja rófur og annan jarðargróða, og trúðar og leikarar leika listir sínar … Sem sé allt það sem Reykjavík er varla (fyrir utan Skólavörðustíginn), en við vildum að hún væri, og hún gæti hafa orðið (fyrir utan Skólavörðustíginn) hefði sálin úr henni ekki verið mestanpart numin burt og er geymd í sprittupplausn í Árbæjarsafni, sem er einhver sorglegasti staður landsins því þar sér maður svo vel hvernig borgin gæti hafa orðið hefði framrás víxlaranna og húsagerðarmanna á borð við höfund Intrum Justitia-hússins á Laugaveginum ekki verið svo óstöðvandi … En menningarnóttin sameinar Reykvíkinga sem eðli sínu samkvæmt eru sundurlaus söfnuður; og gott mótvægi þeirri leiðinlegu tilhneigingu sem farið er að gæta í seinni tíð hjá staðalmyndahönnuðum, að skipta borgarbúum í innhverfis- og úthverfafólk. Við þrömmuðum því af stað á vit hinnar iðandi reykvísku menningar. Á Kjarvalsstöðum var sérlega ánægjuleg hönnunarsýning og stór sítöt á flekum í Kjarval sem minnti okkur á að þar fór aldeilis maður sem kunni að tala um list sína. Við rétt náðum að heyra tvö lög með Ljótu hálfvitunum á Klambratúni. Þessir Þingeyingar eru í rauninni bæði laglegir og gáfaðir og þeim hefur tekist að bæta sérþingeyskum elementum inn í hinn sér-norðlenska rokktón sem við þekkjum einkum frá Eyfirðingunum í Skriðjöklunum og Hvanndalsbræðrum og gengur út á harðmælt grín. Við þrömmuðum: framhjá Heilsuverndarstöðinni, einu af fallegu húsunum í Reykjavík og Domus Medica sem er meira eins og öll hin: ferhyrningum klastrað einhvern veginn saman eins og kubbað af barni með óvenju vanþroskað formskyn - og upp á Skólavörðuholt, gengum svo niður að Kjaftaklöpp og þaðan alla leið niður að Tjörn: allt í kring var fólk að hittast, og bærinn ómaði af kunningjaheilsunum og ánægjulegu skvaldri og trúðahrópum og sölumönnum og vondri rokkmúsík. Sjálfur hefði ég þegið harmonikufólk og fiðlara, kvæðamenn og dylana en hins vegar var það eins og töfrafullt móment úr mynd eftir Kristínu Jóhannesdóttur að sjá falleg pör á öllum aldri dansa hægan og innilegan tangó á gangbrautinni úr Bankastrætinu og í Lækjargötu þar sem fólk er yfirleitt heldur stúrið á svipinn. Aldrei fyrr hefur mér fundist Reykjavík vera sensúel borg … Við þrömmuðum og þannig leið dagurinn. Allir voru brosandi og ánægjulegir og ófullir. „Taktu aldrei mark á ófullum Íslendingi" segir í Íslandsklukkunni - kannski það - en ég segi: sjáirðu fullan Íslending skaltu forða þér snarlega, því hann er vís með að vilja segja þér sannleikann um þig og sig um það bil átján hundruð sinnum án tilbrigða - að ógleymdri allri spræniþörfinni. Íslendingar eru tvær þjóðir: fullir eða ófullir. Niðri við Tjörnina var einn mávur sem hafði hætt sér á staðinn, kannski útsendari allra hinna að gá hvort Gísli Marteinn væri farinn … Í Vonarstrætinu sáum við strætisvagn og mundum þá eftir því að við vorum orðin hálfþreytt og kominn tími til að koma sér heim. Strætóstöðin var full af fólki en bílstjórinn forðaði sér - sennilega orðinn mannafæla af því að aka einn í vagninum árum saman. Við löbbuðum því alla leiðina til baka sem var ekki síður skemmtilegt því þá var til dæmis hægt að rúlla sér niður brekkur úr bernsku foreldranna. Manni skilst að meira að segja lögreglan hafi hætt sér út úr húsi um nóttina og að sama skapi hafi óvenju lítið farið fyrir ölæði - óskandi að hurðamígararnir hafi haldið í sér. Þetta var ánægjulegur dagur. Á svona degi dettur engum í hug að rífa hús bara af því að þau eru lítil og gömul og orðin svolítið grettin. Svona ætti að vera hvern einasta dag … Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Varist eftirlíkingar Franklín Ernir Kristjánsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Reddarinn Geiri í Glaumbæ - gömul saga og ný Jakob Frímann Magnússon Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Íslenskan okkar allra Bryndís Haraldsdóttir Skoðun
Við ákváðum að skilja bílinn eftir í Hlíðunum og labba niður í bæ - taka svo strætó til baka. Við vorum hluti af innrásarhernum; fótgönguliðarnir úr nágrenni borgarinnar; komin í heimsókn til Reykjavíkur, og brýndum fyrir sjálfum okkur að fara nú ekki að spræna á neinar útihurðir … Menningarnótt er ánægjulegt fyrirbæri og minnir okkur á að það er bara ein leið „niður í bæ". Höfuðborgarsvæðið á sér bara eina sögulega og sálarlega og raunverulega miðju, sem er gamli miðbærinn okkar. Og gildir þá einu hversu oft fólki er stefnt í Smáralindina til að hylla íþróttastjörnur eða skoða nýjustu módelin af jarðýtum - því hvernig er hægt að láta sér líða raunverulega vel eða finna til samkenndar við annað fólk inni í húsi sem er í laginu eins og getnaðarlimur? Menningarnóttin er góð fyrir sjálfsmynd Reykjavíkur. Þennan dag fótósjoppar borgin sig: hún birtist þennan dag sjálfri sér sem iðandi og sólríkur vettvangur fyrir hvers kyns skapandi starfsemi, deigla, heimsborg þar sem fólk er á torgum að spígspora og skapa og selja rófur og annan jarðargróða, og trúðar og leikarar leika listir sínar … Sem sé allt það sem Reykjavík er varla (fyrir utan Skólavörðustíginn), en við vildum að hún væri, og hún gæti hafa orðið (fyrir utan Skólavörðustíginn) hefði sálin úr henni ekki verið mestanpart numin burt og er geymd í sprittupplausn í Árbæjarsafni, sem er einhver sorglegasti staður landsins því þar sér maður svo vel hvernig borgin gæti hafa orðið hefði framrás víxlaranna og húsagerðarmanna á borð við höfund Intrum Justitia-hússins á Laugaveginum ekki verið svo óstöðvandi … En menningarnóttin sameinar Reykvíkinga sem eðli sínu samkvæmt eru sundurlaus söfnuður; og gott mótvægi þeirri leiðinlegu tilhneigingu sem farið er að gæta í seinni tíð hjá staðalmyndahönnuðum, að skipta borgarbúum í innhverfis- og úthverfafólk. Við þrömmuðum því af stað á vit hinnar iðandi reykvísku menningar. Á Kjarvalsstöðum var sérlega ánægjuleg hönnunarsýning og stór sítöt á flekum í Kjarval sem minnti okkur á að þar fór aldeilis maður sem kunni að tala um list sína. Við rétt náðum að heyra tvö lög með Ljótu hálfvitunum á Klambratúni. Þessir Þingeyingar eru í rauninni bæði laglegir og gáfaðir og þeim hefur tekist að bæta sérþingeyskum elementum inn í hinn sér-norðlenska rokktón sem við þekkjum einkum frá Eyfirðingunum í Skriðjöklunum og Hvanndalsbræðrum og gengur út á harðmælt grín. Við þrömmuðum: framhjá Heilsuverndarstöðinni, einu af fallegu húsunum í Reykjavík og Domus Medica sem er meira eins og öll hin: ferhyrningum klastrað einhvern veginn saman eins og kubbað af barni með óvenju vanþroskað formskyn - og upp á Skólavörðuholt, gengum svo niður að Kjaftaklöpp og þaðan alla leið niður að Tjörn: allt í kring var fólk að hittast, og bærinn ómaði af kunningjaheilsunum og ánægjulegu skvaldri og trúðahrópum og sölumönnum og vondri rokkmúsík. Sjálfur hefði ég þegið harmonikufólk og fiðlara, kvæðamenn og dylana en hins vegar var það eins og töfrafullt móment úr mynd eftir Kristínu Jóhannesdóttur að sjá falleg pör á öllum aldri dansa hægan og innilegan tangó á gangbrautinni úr Bankastrætinu og í Lækjargötu þar sem fólk er yfirleitt heldur stúrið á svipinn. Aldrei fyrr hefur mér fundist Reykjavík vera sensúel borg … Við þrömmuðum og þannig leið dagurinn. Allir voru brosandi og ánægjulegir og ófullir. „Taktu aldrei mark á ófullum Íslendingi" segir í Íslandsklukkunni - kannski það - en ég segi: sjáirðu fullan Íslending skaltu forða þér snarlega, því hann er vís með að vilja segja þér sannleikann um þig og sig um það bil átján hundruð sinnum án tilbrigða - að ógleymdri allri spræniþörfinni. Íslendingar eru tvær þjóðir: fullir eða ófullir. Niðri við Tjörnina var einn mávur sem hafði hætt sér á staðinn, kannski útsendari allra hinna að gá hvort Gísli Marteinn væri farinn … Í Vonarstrætinu sáum við strætisvagn og mundum þá eftir því að við vorum orðin hálfþreytt og kominn tími til að koma sér heim. Strætóstöðin var full af fólki en bílstjórinn forðaði sér - sennilega orðinn mannafæla af því að aka einn í vagninum árum saman. Við löbbuðum því alla leiðina til baka sem var ekki síður skemmtilegt því þá var til dæmis hægt að rúlla sér niður brekkur úr bernsku foreldranna. Manni skilst að meira að segja lögreglan hafi hætt sér út úr húsi um nóttina og að sama skapi hafi óvenju lítið farið fyrir ölæði - óskandi að hurðamígararnir hafi haldið í sér. Þetta var ánægjulegur dagur. Á svona degi dettur engum í hug að rífa hús bara af því að þau eru lítil og gömul og orðin svolítið grettin. Svona ætti að vera hvern einasta dag …
Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun