Felix Magath, þjálfari Bayern Munchen, segir að Owen Hargreaves hafi verið sárlega saknað á miðju þýska liðsins upp á síðkastið en fjórir mánuðir eru síðan enski landsliðsmaðurinn fótbrotnaði. Hann er hins vegar byrjaður að æfa á fullum krafti að nýju og gæti leikið sinn fyrsta leik eftir meiðslin gegn Bochum á morgun.
"Við höfum saknað hraða hans og tækni á miðjunni. Hann hjálpar okkur að ná upp takti í miðjuspilinu og ógnar stöðugt með langskotum. Það myndi gefa liði okkar mikið sjálfstraust ef hann getur spilað," sagði Magath.
Bayern mætir Bochum í þýsku úrvalsdeildinni á morgun og þarf nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við Schalke og Werder Bremen sem eru á toppnum, sex stigum á undan Bayern.
"Ef okkur mistekst að vinna Bochum er meistaratitillinn svo gott sem horfinn úr okkar augsýn," segir Magath.