Erlent

Alþjóðlegur jarðfræðigagnagrunnur í smíðum

Eldfjallið St. Helena í Oregonríki í Bandaríkjunum
Eldfjallið St. Helena í Oregonríki í Bandaríkjunum Getty Images

Jarðfræðingar um víða veröld vinna nú að því að búa til heildstæðan gagnagrunn um berg um allan heim. Þetta er í fyrsta skipti sem upplýsingarnar eru settar í samhengi með þessum hætti. Verkefnið sem ber nafnið OneGeology mun svo birta gagnagrunninn á vefnum þannig að heimsbyggðin geti öll nýtt sér upplýsingarnar.

Það er Breska jarðfræðistofnunin sem leiðir verkefnið en vísindamenn frá næstum 60 löndum taka þátt í því. Þá er vonast til þess að hægt verði að skoða jarðfræðikort af jörðinni allri í hlutföllunum 1:1.000.000. „Vandamálið er enn aðgengi", segir Ian Jackson sem leiðir verkefnið. „Við vitum að upplýsingarnar eru allar til en það er ekki alltaf ljóst hvar þær eru. Sumt er enn bara til á pappírsformi", segir Jackson.

Búist er við því að þegar búið verður að sameina allar upplýsingar sem til eru verði það hvati fyrir jarðvísindamenn til að kortleggja þau svæði sem enn eru engar upplýsingar til um. Einnig er búist við því að gagnagrunnurinn verði mikið notaður til að finna nýtanlegar auðlindar eins og vatn eða olíu. Framtíð verkefnisins verður rædd á þingi í Brighton í Englandi í næstu viku. Þar munu vísindamenn bera saman bækur sínar og sjá þá hvenær gagnagrunnurinn gæti orðið að veruleika. Fréttavefur BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×