Erlent

Slæmar fréttir fyrir Súpermann

Hann er vonandi ekki í Serbíu.
Hann er vonandi ekki í Serbíu.

Nýtt steinefni hefur fundist í námu í Serbíu sem hefur samskonar efnasamsetningu og grænu Kryptónít kristallarnir úr kvikmyndinni „Superman Returns".

Í kvikmyndinni verður ofurmennið veikburða í hvert skipti sem hann kemst í tæri við kristallana.

Hið raunverulega efni er hvítt og meinlaust segir Dr. Chris Stanley steinefnafræðingur hjá Náttúrusögusafninu í London.

„Það er reyndar ekki grænt á lit og glóir ekki heldur. Hinsvegar bregst það við útfjólubláu ljósi með því að verða bleikappelsínugult," sagði Dr. Stanley við fréttastofu BBC.

Þegar Stanley var viss um að efnasamsetning efnisins væri hvergi skráð ákvað hann á leita á netinu. Það kom honum á verulega óvart þegar hann komst að því að samsetningin var til í kvikmyndinni um Súpermann.

Efnið mun þó ekki heita Kryptónít heldur Jadarít þegar því verður lýst í vísindatímaritum seinna á árinu. Nafnið kemur til vegna þess að náman þar sem efnið fannst er staðsett í Jadar í Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×